Handbolti

Daníel Þór búinn að semja við Ribe-Esbjerg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Daníel Þór Ingason
Daníel Þór Ingason vísir/bára
Hetja Hauka frá því í gær, Daníel Þór Ingason, er á förum frá félaginu því hann hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg.

Daníel Þór skoraði sigurmark Hauka gegn Selfossi á lokasekúndum leiks tvö í úrslitaeinvíginu í Hleðsluhöllinni í gær. Þar með er staðan jöfn 1-1 í einvíginu.

Daníel er 23 ára og uppalinn Haukamaður en hann er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við danska liðið eftir því sem fram kemur á heimasíðu Ribe-Esbjerg.

„Eftir að hafa spilað í bestu deild á Íslandi í nokkur ár finnst mér kominn tími á nýjar áskoranir,“ er haft eftir Daníel á heimasíðu danska félagsins.

„Ribe-Esbjerg sýndi mikinn áhuga og bauð mér í heimsókn. Eftir hana var ég fullviss um að þetta væri rétta skrefið á mínum ferli.“

Hjá Ribe-Esbjerg spila þeir Rúnar Kárason og Gunnar Steinn Jónsson.

Leikur þrjú í einvígi Hauka og Selfyssinga um Íslandsmeistaratitilinn er í Schenkerhöllinni á morgun, sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×