Körfubolti

Leonard leiddi Toronto til sigurs í Fíladelfíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leonard skoraði 39 stig, þar af 22 í seinni hálfleik.
Leonard skoraði 39 stig, þar af 22 í seinni hálfleik. vísir/getty
Kawhi Leonard skoraði 39 stig og tók 14 fráköst þegar Toronto Raptors vann Philadelphia 76ers á útivelli, 96-101, í undanúrslitum Austurdeildar NBA í kvöld. Staðan í einvígi liðanna er jöfn, 2-2. Vinna þarf fjóra leiki til að komast í úrslit Austurdeildarinnar.

Leonard hefur verið frábær í úrslitakeppninni og leikurinn í kvöld var sá sjötti þar sem hann skorar 30 stig eða meira. Af 39 stigum hans í kvöld komu 22 í seinni hálfleik.



Leonard setti niður gríðarlega mikilvægan þrist og kom Toronto í 90-94 þegar mínúta var eftir. Það bil náði Philadelphia ekki að brúa og Toronto fagnaði fimm stiga sigri, 96-101.



Leonard hitti úr 13 af 20 skotum sínum utan af velli og nýtti átta af tólf vítaskotum sínum. Marc Gasol var næststigahæstur í liði Toronto með 16 stig og Kyle Lowry skoraði 14 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Jimmy Butler skoraði 29 stig og tók ellefu fráköst í liði Philadelphia. JJ Redick skoraði 19 stig. Joel Embiid og Ben Simmons skoruðu aðeins samtals 21 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×