Körfubolti

Kawhi Leonard bætti met er Toronto jafnaði rimmuna | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kawhi Leonard er búinn að vera alveg magnaður.
Kawhi Leonard er búinn að vera alveg magnaður. vísir/getty
Toronto Raptors jafnaði metin í einvígi sínu gegn Philadelphia 76ers í undanúrslitum austurdeildar NBA í nótt þegar að liðið vann sterkan útisigur, 101-96.

Kawhi Leonard, sem farið hefur á kostum fyrir Toronto í úrslitakeppninni, fékk loksins smá hjálp frá samherjum sínum sem dugði til sigurs en Leonard skoraði sjálfur 39 stig, tók fjórtán fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Með frammistöðunni setti hann nýtt met hjá Toronto en hann er nú búinn að skora yfir 30 stig í sex leikjum í úrslitakeppninni. Kyle Lowry átti metið en hann skoraði mest 30 stig í fimm leikjum í úrslitakeppninni fyrir Toronto.

Jimmy Butler var stigahæstur gestanna með 39 stig auk þess sem að hann tók ellefu fráköst en staðan í einvíginu er nú 2-2 og fer næsti leikur fram í Toronto þar sem að oddaleikurinn verður ef af honum verður.

Denver Nuggets jafnaði einnig metin í 2-2 í einvígi sínu gegn Portland í undanúrslitum vestursins með sigri á útivelli, 116-112. Bæði lið eru nú búin að vinna einn leik og tapa einum á heimavelli.

Nicola Jokic, Serbinn magnaði í liði Denver, bauð upp á aðra þrennuna í röð með því að skora 21 stig, taka tólf fráköst og gefa ellefu stoðsendingar.

Jamal Murray gerði enn betur og skoraði 34 stig en hann var með þrennu í síðasta leik. Murray og Jokic eru fyrstu samherjarnir sem ná þrennu og 30 stiga leik í tveimur leikjum í röð síðan að Magic Johnson og Kareem Abdul Jabbar gerðu slíkt við sama árið 1980.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×