Körfubolti

Jón Axel íþróttamaður ársins hjá Davidson

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Axel Guðmundsson er að uppskera.
Jón Axel Guðmundsson er að uppskera. Vísir/Getty

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, var útnefndur íþróttamaður ársins í karlaflokki hjá Davidson-háskólanum í nótt þegar að íþróttalífið hjá þessum mikla íþróttaskóla var gert upp á lokahófinu.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir Jón Axel sem hann á svo sannarlega skilið en Grindvíkingurinn fór á kostum fyrir körfuboltalið Davidson í vetur en liðið hafnaði í öðru sæti ACC-deildarinnar með fjórtán sigra og fjögur töp en í heildina vann liðið 24 leiki og tapaði tíu.

Jón Axel skoraði 17 stig að meðaltali í leik, tók 7,3 fráköst, gaf fimm stoðsendingar og var með 46 prósent skotnýtingu en hann leiddi nánast alla tölfræðiflokka hjá sínu liði. Þá var hann fyrsti leikmaður Davidson í 46 ár til að ná þrennu í leik.

Íslenski landsliðsmaðurinn hefur sett stefnuna á nýliðaval NBA-deildarinnar en hann spilaði með Davidson-háskólanum í mars-fárinu sem er úrslitakeppni háskólaboltans. Þar var eftir honum tekið enda frammistaða Jóns framúrskarandi á tímabilinu.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.