Körfubolti

Lillard um þristinn: „Hugsaði að þetta væri þægilegt færi“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lillard skoraði 50 stig í leiknum í nótt
Lillard skoraði 50 stig í leiknum í nótt vísir/getty

Damian Lillard skoraði í nótt ótrúlegan flautuþrist sem hefur nú þegar verið nefndur sem eitt af bestu augnablikum í sögu úrslitakeppni NBA.

Lillard driplaði nokkrum sinnum þegar hann var rétt kominn yfir miðjulínuna og tíminn var að fjara út í leik Portland Trail Blazers og Oklahoma City Thunder í nótt. Hann fór svo í þristinn, sem söng í netinu og Portland fagnaði sigri.
„Það var mjög góð tilfinning þegar hann fór úr höndunum á mér, ég fann að þetta var gott skot,“ sagði Lillard.

Þegar Lillard driplaði niður tímann áttaði Paul George sig á því að hann myndi skjóta og reyndi að loka á Lillard, en var of seinn.

„Ég vildi ekki setja leikinn í hendurnar á dómaranum, að meta hvort það hefði verið villa, eða fara í erfiðara skot. Ég stóð þarna, horfði á hringinn og hugsaði: Þetta er þægilegt færi.“

„Ég hugsaði: ég ætla að skjóta. George var aðeins frá mér og ég hugsaði að ég hefði nóg pláss til að fara í skotið.“

George var hins vegar ekki hrifinn af skotinu.

„Þetta er slæmt skot. Mér er sama hvað aðrir segja, þetta er slæmt skot. En hann hitti úr því,“ sagði Oklahoma-maðurinn.

Lillard virðist hins vegar búinn að gera svona löng skot að sínum, samkvæmt Second Spectrum er Lillard 8 af 12 í skotum lengra en 30 fet frá körfunni í þessari úrslitakeppni. Allir aðrir leikmenn í úrslitakeppninni, 16 liðum, eru 6 af 38.
 

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.