Erlent

Klaktíðni keisaramörgæsa lækkar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Keisaramörgæsin ber nafn með rentu, enda afar tignarleg.
Keisaramörgæsin ber nafn með rentu, enda afar tignarleg. Wolfgang Kaehler/Getty
Dýralífssérfræðingar um málefni keisaramörgæsa á Suðurskautslandi segja lækkandi fæðingartölur tegundarinnar á einni stærstu útungunarstöð tegundarinnar síðustu ár vera mikið áhyggjuefni.

Á síðustu þremur árum hefur nánast ekkert borið á æxlun keisaramörgæsa á Halley-flóa, sem hefur á síðustu árum verið næst stærsta uppeldisstöð tegundarinnar. Venjulega komi 15 til 24 þúsund mörgæsir saman á flóanum til að sinna fjölgun tegundarinnar. Síðan 2016 hafi hins vegar varla sést mörgæs á þessum slóðum.

Halley-flói hefur almennt verið álitinn öruggur staður fyrir æxlun og uppeldi hjá keisaramörgæsum þar sem hann er einn kaldasti staður veraldar og því hægt að gera ráð hitastigi þar sem hentaði mörgæsunum, þrátt fyrir hlýnandi loftslag jarðarinnar.

Vísindamennirnir viðurkenna þá að mörgæsir séu í auknum mæli farnar að sækja á aðrar slóðir, nálægt Halley-flóa, til útungunar. Þrátt fyrir það sé enn stór skekkja á núverandi útungunartölum miðað við það sem sést hefur hjá tegundinni á síðustu árum.

„Við höfum ekki séð útungunarbrest af þessari stærðargráðu í 60 ár. Það er óvanalegt að bresturinn sé algjör í svona stórri stöð,“ sagði Phil Trathan, líffræðingur hjá Suðurskautsrannsóknarstofnun Bretlands, í samtali við Guardian.

Samkvæmt honum þykir eðlilegt að um 8% allra keisaramörgæsa klekist út á Halley-flóa.

Keisaramörgæsir eru stærstar allra mörgæsa en þær geta orðið allt að 40 ára gamlar og lifa að jafnaði í um 20 ár. Mökun þeirra á sér stað í allra harkalegustu vetraraðstæðum og karldýrið liggur á egginu þar til það klekst út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×