Skoðun

Starfsumhverfi og kulnun

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir skrifar
Undanfarið hefur mikið verið fjallað um vinnutengda kulnun og streitu í íslensku samfélagi. Vinnustaðurinn hefur bein áhrif á líkamlega, fjárhagslega og félagslega velferð starfsmanna og þar með heilsu fjölskyldna þeirra og samfélagsins. Vinnustaðurinn býður því upp á kjörið umhverfi og innviði til að efla heilsu stórs hóps. En hvaða þættir í starfsumhverfinu eru það sem geta verndað og eflt heilsu starfsmanna?

Heilbrigt starfsumhverfi eflir vellíðan starfsfólks en að mörgu er að huga til þess að starfsumhverfið sé heilsueflandi og heilsuverndandi. Stjórnendur spila lykilhlutverk í góðu starfsumhverfi en þeir geta verið þáttur í því hversu mikið vinnuálag starfsfólk upplifir, sem getur haft áhrif á heilsu starfsfólks á vinnustaðnum. Heilsueflandi forysta styður við heilbrigt starfsumhverfi en rannsóknir hafa endurtekið sýnt að það eru áherslur stjórnenda sem fyrst og fremst tengjast líðan starfsmanna og heilbrigði þeirra. Með heilsueflandi forystu geta leiðtogar stutt heilbrigt vinnuumhverfi með því að veita úrræðamiðuð vinnuskilyrði fyrir starfsfólk til þess að styðja við heilsu þeirra. Hægt er að koma í veg fyrir mögulegar neikvæðar afleiðingar hættulegra vinnuskilyrða, til dæmis kulnun með því að breyta vinnuskilyrðum á heilsustyðjandi hátt. Viðhorf stjórnenda til heilsu og líðan starfsfólks er því mikilvægt og getur ýtt undir vellíðan og heilbrigði starfsfólks. Í heilbrigðu starfsumhverfi styðja stjórnendur við vellíðan starfsfólks með því að leggja áherslu á góð samskipti, stuðning, að starfsfólk hafi áhrif á eigin störf, þroskist í starfi og fái traust frá yfirmönnum og með því að leggja áherslu á heilsu og líðan.

Stuðningur frá stjórnendum og samstarfsfólki getur dregið úr álagi og stuðlar að bættri heilsu og vellíðan. Sýnt hefur verið fram á að félagslegur stuðningur geti komið í veg fyrir kulnunareinkenni þar sem hann eflir áhuga og virkni í starfi og starfsánægju.

Ef einstaklingur getur haft áhrif á eigin störf og upplifir félagslegan stuðning í starfi þá getur það haft áhrif á hvernig hann upplifir álag í starfi. Sálrænt álag í starfi mótast af samspili milli þeirra krafna sem fylgja starfinu og þeirra áhrifa sem einstaklingur getur haft til að mæta þessum kröfum. Ef þetta samspil er með neikvæðum formerkjum getur það leitt af sér viðvarandi streitu sem hefur langtímaafleiðingar á heilsu. Félagslegur stuðningur í starfi getur dregið úr neikvæðum áhrifum mikils álags og lítilla áhrifa á eigin störf. Einnig þegar starfsfólk upplifir meiri sálrænar kröfur, hefur lítil áhrif á eigin störf og upplifir lítinn félagslegan stuðning þá aukast líkurnar á þunglyndiseinkennum. Auk tengsla áhrifa á eigin störf við sálræna og andlega líðan hefur einnig verið sýnt fram á að að lítil starfsstjórn í vinnuumhverfi geti stuðlað að þróun kransæðasjúkdóma. Einnig getur vald til ákvarðanatöku bætt frammistöðu og starfsánægju og dregið úr tíðni fjarveru og starfsmannaveltu.

Hvatning í starfi er árangursrík leið til að efla árangur skipulagsheilda og samfélaga og til að auka vellíðan einstaklinga. Hvatning hefur einnig áhrif á færni sem einstaklingar þróa með sér, störf og starfsferil þeirra og hvernig þeir nýta krafta sína.

Vinna og einkalíf einstaklinga skarast og hafa gagnvirk áhrif á hvort annað. Rannsóknir hafa sýnt að togstreita á milli vinnu og einkalífs veldur neikvæðum líkamlegum og sálrænum áhrifum sem hafa neikvæð áhrif á frammistöðu starfsfólks. Togstreita á milli vinnu og einkalífs getur haft neikvæð áhrif á frammistöðu starfsfólks og aukið óánægju og streitu. Með samspili vinnu og einkalífs styðja stjórnendur við starfsfólk sitt og stuðla að vellíðan þess. Stuðningurinn getur falist í umhyggju, sveigjanleika í vinnu eins og sveigjanlegum vinnutíma og fjölskyldu- eða persónulegra leyfa.

Hönnun starfsumhverfis getur einnig haft áhrif á vellíðan starfsfólks. Rannsóknir sýna í auknum mæli að ófullnægjandi gæði umhverfis innanhúss geti valdið veikindum, haft slæm áhrif á vellíðan og dregið úr framleiðni starfsfólks. Áhættuþættir á vinnustaðnum geta falið í sér margra klukkutíma tölvunotkun, viðvarandi óþægilegar höfuð- og handleggjastellingar, léleg sjónræn skilyrði sem hafa áhrif á augu og sjón, léleg lýsingarskilyrði og aðra neikvæða vinnutengda þætti. Einnig hefur verið sýnt fram á að kostnaður getur verið mikill vegna ófullnægjandi innanhúss umhverfisgæða.

Að mörgu er að hyggja þegar kemur að heilbrigðu starfsumhverfi. Gott starfsumhverfi er fjárfesting fyrir fyrirtæki en eins og fram hefur komið þá getur það eflt og verndað vellíðan starfsfólks og getur jafnframt haft jákvæð áhrif á framleiðni innan fyrirtækja. Stjórnendur eru þarna í lykilhlutverki með því að skapa góð vinnuskilyrði, veita starfsfólki stuðning, leggja áherslu á góð samskipti og með því að gera einstaklingum kleift að hafa áhrif á eigin störf.

Höfundur er með MS próf í mannauðsstjórnun.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×