Körfubolti

Westbrook nálægt þrennu en OKC í vandræðum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Portland er í flottum málum.
Portland er í flottum málum. vísir/getty

Portland Trail Blazers er komið 2-0 yfir í einvígi sínu á móti Oklahoma City Thunder í átta liða úrslitum vestursins í NBA-deildinni í körfubolta en Portland vann annan leikinn í nótt á heimavelli, 114-94.

Margir voru búnir að spá því að OKC, sem hafnaði í sjötta sæti vestursins, myndi leggja Portland í þessari seríu og er allt opið enn þá er hún færist til Oklahoma City en Portland er vissulega í fínum málum.

Damian Lillard og CJ McCollum fóru á kostum fyrir heimamenn en sá síðarnefndi skoraði 33 stig og Lillard bætti við 29 í þessum frækna sigri Portland-liðsins sem var búið að tapa tíu leikjum í úrslitakeppninni í röð áður en kom að rimmunni gegn OKC.

Russell Westbrook hlóð í þrennu í fyrsta leiknum og var nálægt annarri í nótt en hann skoraði fjórtán stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók níu fráköst. Hann fór af velli þegar að þrjár og hálf mínúta var eftir en þjálfari OKC kastaði þá inn hvíta handklæðinu og tók allt byrjunarliðið út af.

Toronto Raptors og Denver Nuggets jöfnuðu bæði sín einvígi en Toronto vann öruggan sigur á Orlando Magic, 111-82, á heimavelli og fer í stöðunni 1-1 suður til Flórída.

Kawhi Leonard skoraði 37 stig fyrir heimamenn og Kyle Lowry, sem að skoraði ekki stig í fyrsta leiknum, setti 22 stig fyrir Toronto.

San Antonio Spurs komst mest 19 stigum yfir á móti Denver Nuggets í öðrum leik liðanna í vestrinu í nótt og hefði hæglega getað komist í 2-0 í rimmunni en heimamenn sýndu hetjulega baráttu og komu til baka og unnu, 114-105. Staða í einvíginu er 1-1.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.