Handbolti

Kínverskt lið tekur þátt í Austur-Evrópudeildinni í handbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik með kínverska landsliðinu.
Úr leik með kínverska landsliðinu. vísir/getty
Lið frá Kína, Beijing Sport University, mun taka þátt í SEHA-deildinni í handbolta á næsta tímabili.

SEHA-deildin er eins konar Meistaradeild Austur-Evrópu. Þar leika lið á borð við Vardar frá Norður-Makedóníu, Zagreb frá Króatíu og Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi.

SEHA-deildin var sett á laggirnar árið 2011. Á næsta tímabili, sem verður það níunda frá stofnun deildarinnar, verða þátttökuliðin tólf en ekki tíu.

Forráðamenn SEHA-deildarinnar ákváðu að taka inn kínverskt lið á næsta tímabili. Með því að sækja á þessu nýju mið vonast þeir til að auka vinsældir deildarinnar og efla markaðsstarf hennar.

Handboltinn er ekki hátt skrifaður í Kína en forráðamenn SEHA-deildarinnar vonast til að hann eflist með þessu athyglisverða útspili.

Karlalandslið Kína hefur ekki komist á HM í 20 ár. Kínverjar enduðu í 9. sæti í Asíukeppninni í fyrra. Kínverska kvennalandsliðið er hins vegar fastagestur á HM og vann til bronsverðlauna í Asíukeppninni í fyrra.

Vardar er ríkjandi meistari í SEHA-deildinni. Vardar vann Zagreb, 26-23, í úrslitaleik deildarinnar fyrr í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×