Handbolti

Kínverskt lið tekur þátt í Austur-Evrópudeildinni í handbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik með kínverska landsliðinu.
Úr leik með kínverska landsliðinu. vísir/getty

Lið frá Kína, Beijing Sport University, mun taka þátt í SEHA-deildinni í handbolta á næsta tímabili.

SEHA-deildin er eins konar Meistaradeild Austur-Evrópu. Þar leika lið á borð við Vardar frá Norður-Makedóníu, Zagreb frá Króatíu og Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi.

SEHA-deildin var sett á laggirnar árið 2011. Á næsta tímabili, sem verður það níunda frá stofnun deildarinnar, verða þátttökuliðin tólf en ekki tíu.

Forráðamenn SEHA-deildarinnar ákváðu að taka inn kínverskt lið á næsta tímabili. Með því að sækja á þessu nýju mið vonast þeir til að auka vinsældir deildarinnar og efla markaðsstarf hennar.

Handboltinn er ekki hátt skrifaður í Kína en forráðamenn SEHA-deildarinnar vonast til að hann eflist með þessu athyglisverða útspili.

Karlalandslið Kína hefur ekki komist á HM í 20 ár. Kínverjar enduðu í 9. sæti í Asíukeppninni í fyrra. Kínverska kvennalandsliðið er hins vegar fastagestur á HM og vann til bronsverðlauna í Asíukeppninni í fyrra.

Vardar er ríkjandi meistari í SEHA-deildinni. Vardar vann Zagreb, 26-23, í úrslitaleik deildarinnar fyrr í þessum mánuði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.