Körfubolti

Sigurður Gunnar hefur gert „hið ómögulega“ tvisvar sinnum á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í einum leiknum á móti Njarðvík.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í einum leiknum á móti Njarðvík. Vísir/Bára
Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór fyrir ÍR-liðinu í ótrúlegri endurkomu þess á móti Njarðvík í átta liða úrslitum úrslitakeppni Domino´s deildar karla.

ÍR-liðið lenti 2-0 undir en tryggði sér sæti í undanúrslitunum með því að vinna þrjá síðustu leikina. Sigurður Gunnar var í aðalhlutverki hjá ÍR-liðinu í bæði vörn og sókn.

Sigurður var með 16 stig, 8 fráköst og 21 framlagsstig í sigrinum í Njarðvík í gær og setti niður magnaða þriggja stiga körfu sekúndu áður en leiktíminn rann út í fyrri hálfleik. Alls var Sigurður Gunnar með 15,2 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í leik í einvíginu.

ÍR og Þór urðu í gærkvöldi aðeins þriðja og fjórða liðið til að koma til baka eftir að hafa lent 2-0 undir í einvígi í úrslitakeppninni. Svo skemmtilega vill til að Sigurður Gunnar Þorsteinsson sjálfur kom þarna í annað skiptið á ferlinum að svona sögulegri endurkomu.

Sigurður Gunnar var nefnilega í Keflavíkurliðinu sem vann upp 2-0 forskot ÍR-inga í undanúrslitaeinvíginu vorið 2008 eða fyrr ellefu árum síðan. Sigurður Gunnar og félagar unnu síðan úrslitaeinvígið 3-0 og urðu Íslandsmeistarar.

Þá var Sigurður Gunnar tvítugur en nú er hann orðinn 31 árs gamall og er enn á ný kominn í undanúrslitin með liði sínu.

Vorið 2008 voru Keflvíkingar á heimavelli í oddaleiknum en í leiknum í gær þurfti Sigurður Gunnar og félagar að sækja sigur í Ljónagryfjuna í Njarðvík.

Það gerir afrek ÍR-liðsins sem og Þórsliðsins enn merkilegra að hjá báðum liðum voru tveir af þessum þremur sigrum liðanna á útivöllum og þar að auki á tveimur af sterkustu heimavöllum deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×