Körfubolti

Borche: Efast ekki um að þeir hafi tekið rétta ákvörðun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Borche var ánægður með margt í leik ÍR en svekktur með tapið í Ljónagryfjunni.
Borche var ánægður með margt í leik ÍR en svekktur með tapið í Ljónagryfjunni. vísir/andri marinó
„Hvert einasta tap er erfitt. Sérstaklega þetta þegar úrslitin ráðast á einni sókn undir lokin. Þetta er blóðugt. Við ákváðum að spila 3-2 svæðisvörn í lokasókn Njarðvíkur en Elvar [Már Friðriksson] setti niður stórt skot. Svona er þetta,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir tapið nauma fyrir Njarðvík í kvöld.

„Í síðustu sókn okkar fékk Hákon [Örn Hjálmarsson] opið skot en það geigaði. Í næsta leik þurfum við væntanlega að spila án Kevins.“

Borche vísaði þar til Kevins Capers sem var hent út úr húsi undir lok 3. leikhluta fyrir að slá til Jóns Arnórs Sverrissonar. Borche segist ekki hafa séð atvikið en setti ekki út á dóminn.

„Ég sá þetta eiginlega ekki. Ég sá Jón Arnór bara detta og svo þegar dómararnir ráku Kevin út af. Þeir studdust við myndband og sáu þetta betur. Ég efast ekki um að þeir hafi tekið rétta ákvörðun,“ sagði Borche.

Capers er að öllum líkindum á leiðinni í bann vegna brotsins. En geta ÍR-ingar spjarað sig án hans?

„Allir aðrir þurfa að spila af tvöföldum krafti. Það er eina lausnin,“ sagði Borche sem spilaði með svæðisvörn stóran hluta leiksins í kvöld.

„Ég var ánægður með hana á köflum en svo datt hún niður. Það er ekki hægt að spila fullkominn leik og þegar uppi var staðið gerðum við fleiri mistök en Njarðvík.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×