Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - ÍR 81-85 | ÍR náði 7.sætinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
vísir/vilhelm
ÍR-ingar höfðu betur gegn Grindvíkingum í baráttunni um 7.sæti Dominos-deildarinnar. Þeir unnu fjögurra stiga sigur í Mustad-höllinni í kvöld og mæta Njarðvíkingum í 8-liða úrslitum.

Fyrsti leikhluti var jafn á nánast öllum tölum en í öðrum leikhluta tóku heimamenn yfirhöndina. Þeir komust mest 11 stigum yfir og leiddu með 8 stigum í hálfleik. Vörn heimamanna var stórfín í öðrum leikhluta og lagði grunninn að forskotinu. Skotin þeirra voru sömuleiðis að detta niður og þetta er yfirleitt góð blanda.

Í þriðja leikhluta mættu ÍR-ingar hins vegar til leiks með vörnina sína. Þeir þvinguðu Grindvíkinga í erfið skot og minnkuðu muninn smátt og smátt. Þeir leiddu með fjórum stigum fyrir lokaleikhlutann og þann mun náðu Grindvíkingar ekki að brúa.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna, fengu færin til að minnka muninn á lokasekúndunum en settu ekki skotin niður. Gestirnir fögnuðu því sætum sigri, lokatölur 85-81.

Af hverju vann ÍR?

Þeir voru sterkari aðilinn stærri hluta leiksins í dag. Bæði lið áttu sína spretti en varnarleikur ÍR í seinni hálfleik var lykillinn að sigrinum.

Grindvíkingar hefðu þurft stærra framlag frá einhverjum sinna lykilmanna, þar stóð einhvern veginn enginn upp úr og hefur ekki gert í vetur. Heimamenn státa ekki af mikilli breidd og álagið undanfarið líklega haft meiri áhrif á Grindvíkinga en flest önnur lið í deildinni.

Þessir stóðu upp úr:

Ólafur Ólafsson var fremstur meðal jafningja hjá heimamönnum með 15 stig og tók 12 fráköst. Lewis Clinch skoraði 17 stig en Grindvíkingar þurfa meira frá honum líkt og svo oft áður í vetur.

Hjá ÍR spilaði Kevin Capers mjög vel og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skilaði 20 stigum og 8 fráköstum. Sigurður hefur heldur betur stigið upp eftir áramótin og er að spila mun betur en hann gerði með Grindvíkingum á síðasta tímabili.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Grindvíkinga gekk ekki nógu vel í seinni hálfleik. Þeir treysta mikið á þriggja stiga skotin og ef þau detta ekki lenda þeir oftar en ekki í vandræðum, ógnin inni í teig er ekki nægjanlega mikil.

ÍR átti dapran annan leikhluta og gegn Njarðvíkingum mega þeir ekki við jafn löngum kafla þar sem þeir spila illa, þá verður þeim refsað.

Hvað gerist næst?

Úrslitakeppni Dominos-deildarinnar hefst eftir viku. Grindvíkingar fá hlutskiptið sem enginn vildi, að mæta Stjörnunni í 8-liða úrslitum. Þar verður við ramman reip að draga enda Stjörnuliðið frábærlega mannað og verið að spila feykivel eftir áramótin.

Rimma ÍR og Njarðvíkur verður áhugaverð. Njarðvík var í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn fram í síðasta leik en ÍR vann þá í Ljónagryfjunni fyrir skömmu og geta hiklaust gert það aftur.

Jóhann Þór: Við setjum bara kassann út og gerum okkar besta
Jóhann ræðir við sína menn.vísir/daníel
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var svekktur eftir tapið gegn ÍR í kvöld. Grindvíkingar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik en áttu ekki sinn besta leik sóknarlega í þeim síðari.

„Alls ekki, við létum ýta okkur út úr því sem við vorum að gera. Það komu samt alveg sóknir þar sem við náum í fínt skot en þá hittum við ekki. Við vorum alltaf að elta í lokin og það munaði oft litlu að við gripum tækifærtið til að snúa þessu. Því miður gerðist það aldrei,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Það munaði um fyrir heimamenn að Ólafur Ólafsson fór útaf með 5 villur þegar nokkrar mínútur voru eftir en heimamenn voru ósáttir með nokkrar af villunum sem þeir fengu í seinni hálfleiknum.

„Ekki að ég ætli að vera að tuða en mér finnst vanta smá jafnvægi í þetta. Enn og aftur snýst þetta samt um ákvarðanatökur hjá okkur í vörn og sókn. Siggi Þorsteins er undir körfunni að fara í eitthvað neyðar flotskot og þá brýtur Ólafur á honum. Heimskuleg villa og það er þetta sem við höfum verið að glíma við, rangar ákvarðanatökur á báðum endum.“

„Það vantaði ekkert mikið upp á, okkur var bara ekki ætlað að vinna. Við fáum þrjú galopin skot til að setja leikinn niður í eitt stig og brjóta svo en við hittum ekki.“

Grindvíkingar mæta deildarmeisturum Stjörnunnar í 8-liða úrslitum og er óhætt að segja að Garðbæingar séu líklegri aðilinn fyrir þá rimmu enda verið að spila frábærlega síðan um áramótin.

„Við tökum því bara, þeir eru með feykigott lið og vel samansett. Þeim hefur tekist að setja saman mjög gott lið, eitthvað sem okkur hefur mistekist í vetur. Við setjum bara kassann út, tökum þátt og gerum okkar besta. Við látum reyna á þetta, það er klárt,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur.

Borche: Mættum með annað viðhorf í seinni hálfleikinn
Borce Ilievski.vísir/daníel
„Við áttum í vandræðum í fyrri hálfleik, þeir skoruðu 49 stig sem er alltof mikið en við leyfðum þeim það. Við vorum linir og hægir og ákváðum í hálfleik að við þyrftum að fara út og skemmta okkur og gera okkar besta,“ sagði Borche Ilievski þjálfari ÍR eftir sigurinn á Grindavík í kvöld sem tryggði hans mönnum 7.sæti Dominos-deildarinnar.

„Við mættum með annað viðhorf í síðari hálfleikinn og unnum vel. Við notuðum Sigga vel og það bjó til fullt af góðum hlutum og auk þess spilaði Kevin Capers mjög vel í dag.“

Grindavík skoraði heil 49 stig á gestina í fyrri hálfleik og Borche talaði um að það hefði einfaldlega þurft meiri ákveðni í hans menn fyrir hlé.

„Við þurftum að vera ákveðnari á boltamanninn og fyrstu sendinguna. Við löguðum þetta og leyfðum þeim ekki að fá neinar auðveldar körfur, það var lykillinn í þessum sigri.“

ÍR mætir Njarðvíkingum í 8-liða úrslitum í rimmu sem verður mjög áhugaverð, sérstaklega í því ljósi að ÍR-ingar unnu sigur í Ljónagryfjunni fyrir skömmu.

„Stjarnan og Njarðvík eru bæði frábær lið. En þessi sigur þýðir að við mætum til leiks með sigur á bakinu. Við verðum klárir fyrir þessa rimmu.“

Matthías Orri: Ég býst við látum og suði í eyrunum
Matthías sagðist hlakka til að mæta Njarðvíkingum í 8-liða úrslitum.vísir/bára
Matthías Orri Sigurðarson skoraði 12 stig fyrir ÍR-inga í kvöld en hann var á því að álagið undanfarnar vikur hefði haft áhrif á leikinn í kvöld.

„Þetta var einhver 10 mínútna kafli í seinni hálfleik þar sem við náðum að spila af einhverri almennilegri getu og það var nóg, við náðum að kreista fram sigur. Ég vorkenni eiginlega áhorfendum að koma hingað í dag, bæði lið voru mjög þreytt og þetta var skrýtinn leikur. Þetta var fjórði leikurinn á 10 dögum og þreytubragur á þessu.“

„Fínt að ná 7.sætinu og mæta frábæru liði Njarðvíkur. Það er gott að koma með sigur inn í þá rimmu, sérstaklega í svona jöfnum leik. Við vorum að klikka á skotum og margt ekki að ganga og það er rosalega gott að vinna svona leiki. Að vita að við getum unnið leiki þó við séum ekki að hitta vel og ekki að spila eins vel og við getum.“

„Vonandi fáum við 1-2 daga í frí til að hlaða batteríin. Þetta verður erfið sería gegn Njarðvík, þeir eru með góða bakverði, eru vel þjálfaðir og skipulagðir. Við ætlum að hvíla okkur aðeins en erum svo spenntir að mæta til Njarðvíkur.“

ÍR vann sigur í Njarðvík á dögunum og Matthías var sammála því að sá sigur gæfi þeim aukakraft fyrir þessa rimmu.

„Við erum þannig að lið að við getum unnið alla. Það er gott að vera búnir að vinna þá, fá tilfinninguna. Við komum fullir sjálfstrausts og reynum að hlaupa á þá. Það er pressa á þeim að vinna eftir að hafa lent í 2.sæti og vera með frábæra leikmenn.“

Það hefur verið mikil stemmning í Hellinum, heimavelli ÍR, í úrslitakeppninni síðustu árin. Matthías var handviss um að stuðningsmannasveitin Ghetto-hooligans myndu mæta klárir í slaginn þar.

„Ég býst við látum, fjölmenni, suði í eyrunum eftir leiki eins og eftir alvöru rokktónleika. Þetta hefur verið svolítið erfitt tímabil fyrir okkur og við ætlum svo sannarlega að láta finna fyrir okkur. Við búumst við góðum stuðningi úr stúkunni,“ sagði Matthías Orri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira