Körfubolti

Jóhann Þór: Við setjum bara kassann út og gerum okkar besta

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann hættir með Grindavík eftir tímabilið
Jóhann hættir með Grindavík eftir tímabilið vísir/daníel

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var svekktur eftir tapið gegn ÍR í kvöld. Grindvíkingar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik en áttu ekki sinn besta leik sóknarlega í þeim síðari.

„Alls ekki, við létum ýta okkur út úr því sem við vorum að gera. Það komu samt alveg sóknir þar sem við náum í fínt skot en þá hittum við ekki. Við vorum alltaf að elta í lokin og það munaði oft litlu að við gripum tækifærtið til að snúa þessu. Því miður gerðist það aldrei,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Það munaði um fyrir heimamenn að Ólafur Ólafsson fór útaf með 5 villur þegar nokkrar mínútur voru eftir en heimamenn voru ósáttir með nokkrar af villunum sem þeir fengu í seinni hálfleiknum.

„Ekki að ég ætli að vera að tuða en mér finnst vanta smá jafnvægi í þetta. Enn og aftur snýst þetta samt um ákvarðanatökur hjá okkur í vörn og sókn. Siggi Þorsteins er undir körfunni að fara í eitthvað neyðarflotskot og þá brýtur Ólafur á honum. Heimskuleg villa og það er þetta sem við höfum verið að glíma við, rangar ákvarðanatökur á báðum endum.“

„Það vantaði ekkert mikið upp á, okkur var bara ekki ætlað að vinna. Við fáum þrjú galopin skot til að setja leikinn niður í eitt stig og brjóta svo en við hittum ekki.“

Grindvíkingar mæta deildarmeisturum Stjörnunnar í 8-liða úrslitum og er óhætt að segja að Garðbæingar séu líklegri aðilinn fyrir þá rimmu enda verið að spila frábærlega síðan um áramótin.

„Við tökum því bara, þeir eru með feykigott lið og vel samansett. Þeim hefur tekist að setja saman mjög gott lið, eitthvað sem okkur hefur mistekist í vetur. Við setjum bara kassann út, tökum þátt og gerum okkar besta. Við látum reyna á þetta, það er klárt,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.