Enski boltinn

Örmagna Pep fór frá Manchester eins fljótt og hann gat

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola er þreyttur
Guardiola er þreyttur vísir/getty
Pep Guardiola er farinn í frí þar sem annríki síðustu vikna skildi hann eftir örmagna.

Manchester City á enn möguleika á að vinna fernu í vor, deildarbikarinn er kominn í hús og City á enn möguleika á Englandsmeistaratitlinum, enska bikarnum og Meistaradeild Evrópu.

„Já, ég er þreyttur,“ sagði Guardiola eftir sigur Manchester City á Swansea í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar um helgina.

„Ég kann vel við mig í því ástandi en ég verð ekki í Manchester á morgun, það er alveg ljóst. Ég fer héðan eins fljótt og hægt er.“

Það er komið landsleikjahlé í heimsfótboltanum og því eru engir leikir hjá City næstu tvær vikurnar tæpar. Guardiola getur þó ekki slakað alveg á því sautján leikmenn hans verða í eldlínunni með landsliðum sínum.

„Við biðjum fyrir því að þeir komi til baka heilir. Þeir verða að fara og spila fyrir landslið sín, en ég vona að þeir komi til baka í sama formi og þeir fara í.“

„Þeir sem fara ekki til landsliða sinna fá viku frí, en þurfa samt að æfa aðeins á hverjum degi.“

Næsti leikur City er í deildinni við Fulham laugardaginn 30. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×