Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - FH 26-23 | Selfoss hafði betur í Iðu

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss.
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss. vísir/bára
Það var blásið til veislu í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld þegar Selfoss og FH mættust í stórleik í Olís-deildinni. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti deildarinnar. Hleðsluhöllinn var pakkfull af stuðningsmönnum beggja liða og voru lætin í húsinu eftir því.

 

Selfyssingar náðu undirtökunum snemma í leiknum. Gífurlega sterkur varnarleikur varð til þess að það kom tæplega níu mínútna  kafli í fyrri hálfleik sem að FH-ingar náðu ekki að skora. Leikmenn virtust pirraðir á ástandinu og Halldór Jóhann fór að rótera mikið í liðinu.

 

Heimamenn náðu mest sex marka forystu í fyrri hálfleiknum en Atli Ævar fór á kostum. Skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum í fyrri hálfleik.

 

Þrátt fyrir magnaðan varnarleik á köflum hjá Selfyssingum voru leikmennirnir oft klaufar í sókninni, völdu skotin illa og voru að flýta sér heldur mikið. Með agaðri sóknarleik hefðu Selfyssingar getað aukið forskot sitt. Heimamenn leiddu með fimm mörkum í hálfleik.

 

Í upphafi síðari hálfleiks snerist leikurinn við. Gestirnir úr Hafnarfirði komu grimmir út í hálfleikinn og spiluðu vörnina frábærlega. Fyrsta mark Selfoss kom ekki fyrr en eftir rúmlega níu mínútna leik í síðari hálfleik.

 

FH minnkaði forystuna jafnt og þétt og á tímabili var munurinn einungis tvö mörk. Leikmenn Selfyssinga héldu áfram að finna opnanir á vörn FH sem varð til þess að þeir hleyptu andstæðingnum ekki nær sér.

 

Ágúst Birgisson fékk að líta beint rautt spjald þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum fyrir gróft brot á Einari Sverrissyni. Selfyssingar spiluðu langar og flottar sóknir síðustu mínúturnar og uppskáru að lokum þriggja marka sigur.

 

Eftir sigurinn í kvöld situr Selfoss í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Haukum en með stigi meira en Valur sem er í þriðja sæti.

 

Afhverju vann Selfoss?

Selfyssingar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik. Leikmenn Selfoss héldu sóknarmönnum FH í skefjum enda sást það á hálfleikstölunum, 13-8. Þrátt fyrir að Selfyssingar hafi átt slæman kafla í upphafi síðari hálfleiks þá fann liðið fljótt dampinn aftur og sigldi sigrinum að lokum heim, nokkuð örugglega.

 

Hverjir stóðu uppúr?

Atli Ævar var gjörsamlega magnaður í kvöld. Skoraði átta mörk úr níu tilraunum. Öll lið ættu að eiga einn Atla Ævar. Leikmaður sem er frábært að hafa í sínu eigin liði en trúlega ekkert sérstaklega skemmtilegt að spila á móti honum. Hergeir Grímsson var flottur í vörninnni, eins og svo oft áður, með tíu löglegar stöðvanir.

 

Hjá FH fór Jóhann Birgir fyrir sínum mönnum með sex mörk, hann þurfti þó ellefu tilraunir til. Ásbjörn Friðriksson skoraði fimm úr tíu tilraunum.

 

Hvað gekk illa?

Eins og fyrr segir kom kafli hjá báðum liðum í leiknum þar sem að gjörsamlega ekkert gekk upp. Slæmi kafli FH kom í fyrri hálfleik en slæmi kafli Selfyssinga í þeim síðari. Liðunum tókst þá ekki að skora í níu mínútur.

 

Hvað gerist næst?

Það er bikarhelgi næstu helgi en þar verður FH í eldlínunni. Liðið mætir ÍR í undanúrslitum en þessi lið mættust einnig í síðustu umferð Olísdeildarinnar, þá sigraði FH með fimm mörkum. Selfyssingar fá rúmlega tveggja vikna frí en liðið á næst leik þann 18. mars gegn KA á Akureyri.

vísir/bára
Patrekur: Ekkert partý hjá mér

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssingar, var hæstánægður með frammistöðu sinna manna gegn FH í kvöld. Leiknum lauk með 26-23 sigri Selfyssinga.

 

„Við byrjuðum leikinn frábærlega, sérstaklega varnarlega. Við fórum vel eftir plani og ég veit ekki hversu mörg fríköst við fengum. Ég held að við höfum lagt grunninn að sigrinum með því að spila svona vel í byrjun.“

 

„Við hikstuðum aðeins í byrjun síðari hálfleiks sóknarlega og þá nýttu leikmenn FH sér það, Jóhann Birgir, Bjarni, Ási og fleiri. Þetta var bara hörkuleikur, toppslagur og ég er ánægður með stigin.“

 

Selfyssingar voru með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik en fyrsta mark liðsins í síðari hálfleik kom ekki fyrr en eftir níu mínútur.

 

„Manni finnst það ekkert gott þegar við náum ekki að skora í svona langan tíma og það fór um mann. Maður reynir bara að vera með kaldan haus og fara ekkert á taugum.“

„Ég hugsaði lengi að fara í sjö á sex en svo vorum við að fá margar góðar opnanir og það var svo mikið pláss þannig að við fórum ekki í það. Við héldum haus og strákarnir voru frábærarir, húsið, stemningin, allt eins og það á að vera.“

 

„Þú mátt aldrei slaka á á móti FH, þetta er bara það gott lið. Þeir hafa verið að spila mjög vel og fyrir leikinn voru liðin með jafnmörg stig. Ég er ánægður með það hvernig liðið kom inn í þennan leik. Við vorum samstilltir og það voru allir að berjast fyrir hvorn annan.“

 

Selfyssingar eiga ekki leik fyrr en eftir rúmar tvær vikur en næstu helgi verður leikið í bikarnum. Patrekur ætlar þrátt fyrir fríið ekki að halda Eurovision partý á morgun.

„Nei, ég ætla að fara í smá frí þannig að það verður ekkert partý hjá mér,“ sagði Patrekur léttur að lokum. 

Halldór Jóhann: Kannski búið að tala menn of mikið upp

„Við byrjum leikinn ekki fyrr en eftir tíu mínútur í seinni hálfleik, í raun og veru. Við spilum mjög góða vörn í seinni hálfleik en ég er aðallega bara ósáttur við það hvernig við komum inn í leikinn,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir tapið á Selfossi í kvöld.

 

„Það voru ansi margir hlutir sem að við vissum að myndi koma og að við þyrftum að verjast en við vorum bara ekki með í fyrri hálfleik.Við vorum heppnir að þeir voru ekki búnir að slátra okkur og koma þessu í átta mörk í fyrir hálfleik.“

 

Er eitthvað sem að Halldór Jóhann hefði getað gert betur í undirbúningnum fyrir leikinn?

 

„Það getur vel verið að það sé eitthvað í undirbúningnum sem að ég get tekið á mig, alveg örugglega. Við virtumst bara ekki jafn tilbúnir í þennan leik eins og við höfum verið í síðustu leikjum.“

 

„Kannski er búið að tala menn svo mikið upp að þeir geti farið að taka því rólega, ég veit það ekki. Kannski eru menn farnir að trúa því að við séum orðnir eitthvað betri en við höfum verið að sýna. Við höfum verið að vinna þessa leiki vegna þess að við höfum verið að sýna mikla fagmennsku í undirbúningi og við höfum verið klárir á okkar.“

 

„Ég tek ekkert af Selfyssingum, þeir komu gríðarlega grimmir inn í leikinn og það er það sem að við ætluðum að gera. Við vorum slakir á svo mörgum sviðum en samt töpum við bara með þremur mörkum.“

 

FH þarf að rífa sig fljótt upp úr svekkelsinu en liðið er komið í undanúrslit bikarsins og mætir þar ÍR á föstudag.

 

„Algjörlega, það geta allir tapað handboltaleik. Það er bara spurning hvernig þú tapar handboltaleik. Við vitum alveg af mikilvægi næstu helgar, það er í raun bara allt önnur keppni,“ sagði Halldór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.