Handbolti

Óðinn markahæstur í tvígang og átti tilþrif umferðarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skorar með skemmtilegu skoti framhjá Niklas Landin.
Óðinn Þór Ríkharðsson skorar með skemmtilegu skoti framhjá Niklas Landin. mynd/GOG
Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðshornamaður í handbolta og leikmaður GOG í Danmörku, skoraði sex mörk og var markahæstur í fjögurra marka tapi, 26-22, á móti þýska stórliðinu Kiel í EHF-bikarnum í gær.

Þetta var annar leikur liðanna í röð í riðlakeppni EHF-bikarsins en Kiel vann fyrri leikinn stórt á heimavelli, 37-23, þar sem að Óðinn var sömuleiðis markahæstur sinna manna með sex mörk. Hann skoraði því tólf mörk í tveimur leikjum á móti lærisveinum Alfreðs Gíslasonar.

Óðinn gerði enn betur því eitt marka hans var einstaklega fallegt en hann skoraði þá með því að kasta boltanum aftur fyrir bak þegar að hann var í hraðaupphlaupi, einn á móti Niklas Landin í marki Kiel. Markið var útnefnt sem tilþrif fjórðu leikviku í EHF-bikarnum eins og sjá má hér að neðan.

Þetta skot er orðinn einskonar kennimerki Óðins en þessi tilþrif bauð hann nokkrum sinnum upp á í Olís-deildinni í fyrra og þá hefur hann skorað nokkrum sinnum með sama hætti í dönsku úrvalsdeildinni í vetur.

Þrátt fyrir töpin tvö á móti Kiel er GOG í fínum málum í D-riðli EHF-bikarsins eftir sigra á útivelli gegn Granollers frá Spáni og Selfoss-bönunum í Azoty-Pulawy á heimavelli en danska liðið á nú eftir seinni leikina á móti þeim.

Kiel er búið að vinna riðilinn enda er það með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Það er því komið í Final Four sem fer einmitt fram í Sparibauknum í Kiel en GOG þarf líklega bara einn sigur í næstu tveimur leikjum til að komast í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×