Innlent

Strætó og rúta full af ferðamönnum út af veginum í Hveradalabrekku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Hellisheiði í morgun.
Frá Hellisheiði í morgun. Vísir/Jói K

Leið 51 hjá Hópbílum sem ekur fyrir Strætó frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði og rúta full af ferðamönnum lentu í hremmingum á leiðinni austur Hellisheiði í morgun.

Strætisvagninn fór út af veginum rétt fyrir klukkan hálf níu í morgun. Einn farþegi var í vagninum til viðbótar við bílstjórann en hvorugur slasaðist.

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó var pantaður leigubíll fyrir farþegann frá Hveragerði til að flytja farþegann, sem var á hraðferð, austur á Selfoss. Unnið er að því að koma vagninum aftur upp á veginn.

Þá fór rúta Reykjavík Sightseeing út af sama vegi, um 100 metra frá en bæði er hvasst og hált á heiðinni. Fjölmargir erlendir ferðamenn eru í rútunni en enginn slasaður.

Fréttin var uppfærð 10:34 með upplýsingum um rútuna sem fór út af. Í fyrri útgáfu sagði að rútan væri á vegum Reykjavík Excursions. Beðist er velvirðingar á þessu.

Rúta með ferðamenn fór útaf veginum. Vísir/JóiK

Færð og aðstæður af vef Vegagerðarinnar klukkan 9:42.
Suðvesturland: Víða greiðfært en hálka er á Hellisheiði, á Mosfellsheiði og í Kjós en hálkublettir á Þrengslum. Krýsuvíkurvegur og Bláfjallavegur eru ófærir. Flughálka er á Kjósarskarði og á Vatnsleysuströnd.

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja víðast hvar. Þungfært er um Brattabrekku en ófært er um Álftafjörð.

Vestfirðir: Víðast hvar hálka eða snjóþekja. Hvasst er víða og nokkur skafrenningur. Þæfingsfærð er á Hálfdán og á hálsunum í Reykhólasveit. Þungfært er á Bjarnarfjarðarhálsi en ófært er um Klettsháls.

Norðurland: Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum. Éljagangur er í Eyjafirði og upp á Öxnadalsheiði. Þæfingur er í Dalsmynni.

Norðausturland: Hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og víða skafrenningur. Þæfingur er á Hófaskarði og Hálsum en þungfært er á kafla innansveitar í Vopnafirði. Ófært er um Hólasand.

Austurland: Hálka eða snjóþekja víðast hvar. Snjóþekja og éljagangur eða snjókoma ásamt töluverðum vindi er suður með ströndinni. Þungfært er á Jökuldalsvegi efri og á Skriðdalsvegi (937).

Á Hellisheiði í morgun. Vísir/Kristófer


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.