Skoðanir
Sirrý Hallgrímsdóttir

Er Dagur eins og ráðuneytisstjóri?

Braggamálið snýst um eina spurningu: Er einhver sem ber pólitíska ábyrgð á rekstri Reykjavíkurborgar?

Allir þekkja afstöðu Dags og Samfylkingarinnar – Dagur ber ábyrgð á vinsælum málum, embættismenn bera ábyrgð á því sem aflaga fer. Árum saman gekk þetta, alveg þangað til ruglið í rekstri borgarinnar var orðið svo mikið að ekki var hægt að horfa fram hjá því.

En afstöðu Pírata og Viðreisnar var beðið með eftirvæntingu. Miðað við hvernig flokkarnir höfðu talað um erindi sitt í stjórnmálum mátti vænta skýrrar afstöðu, stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér bak við embættismenn, þeir bera ábyrgðina.

En fulltrúi Pírata í borgarstjórn, Dóra Björt, réttlætti setu Dags í vinnuhópi um viðbrögð við Braggahneykslinu svona:

„Mér finnst akkúrat að hann (Dagur) eigi að sitja. Mér finnst það eins og að víkja ráðuneytisstjóra úr vinnu sem tekur á sínu eigin ráðuneyti. Niðurstaðan er ekki sú að Dagur beri ábyrgð á þessu.“

Þetta hlýtur að vera Norðurlandamet í pólitískum loftfimleikum. Til þess að forða borgarstjóranum undan pólitískri ábyrgð, þá er hann endurskilgreindur sem ráðuneytisstjóri, en eins og kunnugt er þá bera ráðherrar pólitíska ábyrgð á ráðuneytisstjórum og ráðuneytum sínum.

En hver er afstaða Viðreisnar? Eru borgarfulltrúar þeirra sammála því að borgarstjórinn hafi sambærilega stöðu og ráðuneytisstjórar og beri því ekki pólitíska ábyrgð?

Spurningarnar sem Píratar og Viðreisn verða að svara eru því þessar: Þegar lög og reglur eru brotnar og þegar fjármunum borgarbúa er sóað, ber þá einhver pólitíska ábyrgð? Og úr því að borgarstjóri ber ekki ábyrgðina, hver þá?

Ber kannski enginn pólitíska ábyrgð í Reykjavíkurborg?Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.