Handbolti

Aron, Óli Stef og Eiður fá kannski ekki alltaf það lof sem þeir eiga skilið

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Dagur Sigurðsson spilaði lengi með einum þeim besta, Óla Stef.
Dagur Sigurðsson spilaði lengi með einum þeim besta, Óla Stef. vísir/Sigurður már

Íslenskir leikmenn í allra hæsta gæðaflokki eins og Aron Pálmarsson, Eiður Smári og Ólafur Stefánsson fá kannski ekki alltaf það lof sem þeir eiga skilið segir Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, eftir frábæra frammistöðu Arons á móti Króatiu í gær.

Dagur fór fyrstur af stað í München í gær með japanska liðið í gær og tapaði fyrir Makedóníu. Eftir að hafa farið yfir sinn leik horfði hann á leik Íslands í gærkvöldi og í morgun og var sérlega hrifinn af framlagi Arons Pálmarssonar sem kom að fjórtán mörkum Íslands.

„Aron var að taka rosalega vel af skarið. Það er rosalega spennandi að fylgjast með honum sem leiðtoga innan hópsins og svona. Þetta er allt mjög jákvætt,“ segir Dagur.

Aron er einn besti leikmaður heims en áttum við Íslendingar okkur alveg á hversu góður hann er og hversu stór hann er í þessum handboltaheimi?

Aron Pálmarsson skoraði sjö mörk og gaf sjö stoðsendingar á móti Króatíu. vísir/epa

„Ég vona að menn geri sér grein fyrir því allavega. Ég man samt eftir því með Óla Stef að menn voru altlaf hálf pirraðir út í hann alveg þar til að hann hætti. Hann var einhvern veginn aldrei nógu góður fyrir menn. Sama með Eið Smára. Menn fá kannski ekki alltaf það kredit sem þeir eiga skilið því að þeir eru svo góðir að það er ætlast til þess að þeir geri aðeins meira,“ segir Dagur.

„Það er miklu skynsamlegra að bera þessa stráka saman við einhverja svipaða leikmenn í stóru liðunum. Þeir eiga ekkert alltaf toppleik. Ef þú skoðar alla leiki með Króatíu þá er Duvnjak ekkert alltaf frábær.“

Aron þarf að endurtaka þessa frammistöðu annað kvöld á móti Spáni ef Ísland á að eiga möguleika í Evrópumeistarana en erfitt er að ætlast til svona spilamennsku í hverjum einasta leik.

„Menn þurfa aðeins að vera rólegir með það, að ætlast sé til of mikils. Þessar týpur vilja líka fá mikla ábyrgð og vilja geta tekið af skarið. Nú er bara að halda áfram og halda sjó og hvíla hann aðeins á móti okkur og sjá svo til,“ segir Dagur Sigurðsson.

Klippa: Dagur Sig - Aron tók rosalega vel af skarið

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.