Handbolti

Arnór Þór: Gamli skólinn skilur ekki Fortnite

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Arnór Þór Gunnarsson er alltaf vel studdur af fjölskyldu sinni.
Arnór Þór Gunnarsson er alltaf vel studdur af fjölskyldu sinni. vísir/sigurður már
Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm mörk úr fimm skotum og nýtti bæði vítaköstin sín í tapleiknum á móti Króatíu, 31-27, á HM 2019 í handbolta í gær.

Það dugði því miður skammt en Arnór segir strákana vera búna að hrista þetta af sér og tilbúnir í undirbúning fyrir annan stórleik á móti Spáni annað kvöld.

„Ég held að menn hafi bara sofið ágætlega og borðað vel í morgun. Við erum bara bjartsýnir og tökum góðan myndbandsfund á eftir, svo æfingu og að mér sýnist svo annan myndbandsfund. Menn eru bara borubrattir,“ segir Arnór, sem óttast ekki marga myndbandsfundi Gumma Gumm.

„Nei, alls ekki. Við þurfum bara á þessu að halda. Ég held að það sé bara frábært að skoða Spánverjana betur. Mér finnst fínt að vera á myndbandsfundi. Mér finnst líka bara gott að skoða mótherjana betur og svo er gott að æfa það inn á gólfi og það gerum við líka í dag.“

Arnór Þór Gunnarsson skorar á móti Króatíu í gær.vísir/getty
Strákarnir gista á glæsilegu Hilton-hóteli í München þar sem að fer vel um þá, en hvað gera menn sér til dundurs á milli funda, æfinga og leikja?

„Þetta hótel er frábært. Maturinn er mjög góður. Það er samt ekkert mikið í gangi hérna fyrir utan hótelið. Við löbbuðum hérna í 40 mínútur í gær og ég sá ekki neitt. Hótelið sjálft er frábært og það fer vel um okkur. Ég og Bjarki erum saman í herbergi þannig það er nóg að gera hjá okkur,“ segir Arnór Þór.

Tölvuleikir eru alltaf vinsælir hjá íþróttamönnum. Arnór er ekki mikið í þeim og svo virðist sem þriggja ára aldursbilið (31 árs á móti 28 ára) á milli hans og Bjarka reki fleyg í hugmyndina um að spila Fortnite sem er líklega vinælasti tölvuleikur heims í dag.

„Ég er búinn að spila smá FIFA. Bjarki vill endilega fara í Fortnite en gamli skólinn skilur ekki Fortnite þannig að ég er ekki í því. Ég er búinn að vera aðeins í FIFA en ég er ekki góður í honum,“ segir Arnór og hlær.

Arnór er rækilega studdur af samheldinni fjölskyldu sinni og foreldrar hans voru mættir í andyri hótelsins í heimsókn.

„Mamma og pabbi eru hérna. Þau eru bara í lobbyinu að bíða eftir mér og þú heldur mér í viðtali hérna. Konan kemur svo á morgun þannig að það er ágætis pepp í gangi hérna,“ segir Arnór Þór Gunnarsson.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Arnór Þór - Það er ágætis pepp í gangi

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×