Erlent

Fylgdust með Assange allan sólarhringinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Julian Assange.
Julian Assange. EPA/NEIL HALL

Spænska öryggisfyrirtækið Undercover Global S. L. deildi myndböndum og hljóðskrám af fundum Julian Assange með lögmönnum sínum og öðrum með leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA. Starfsmenn fyrirtækisins höfðu komið fyrir myndavélum í sendiráði Ekvador í London eftir að leyniþjónusta Ekvador réði fyrirtækið til að annast öryggi sendiráðsins og var fylgst með Assange allan sólarhringinn. Hæstiréttur Spánar hefur nú tekið UC Global S. L. til skoðunar vegna málsins.



Þetta kemur fram í umfjöllun El País um málið en þar segir að fylgst hafi verið með Assange á klósettinu og hljóðnemum hafi jafnvel verið komið fyrir á kvennaklósettinu. Blaðamenn miðilsins munu hafa komið höndum yfir skjöl sem varpa ljósi á njósnirnar.



Assange var dæmdur í fimmtíu vikna fangelsi fyrr á þessu ári fyrir að brjóta gegn skilmálum lausnar sem hann hlaut gegn tryggingu árið 2012. Þá leitaði hann hælis í sendiráði Ekvadors í London þar sem hann dvaldi þar til í apríl á þessu ári. Á þeim tíma fjölluðu breskir dómstólar um framsalsbeiðni Svía vegna kynferðisbrotamáls gegn Assange þar í landi.



Hann var handtekinn í sendiráði Ekvador í London þann ellefta maí eftir að ríkisstjórn landsins felldi niður hæli hans.



Samkvæmt EL País byrjaði eigandi UC Global að njósna um Assange árið 2015 og bað hann starfsmenn fyrirtækisins um að halda sambandi þess við Bandaríkjamenn leyndu. Undanfarin ári hefur ný ríkisstjórn Ekvador, sem leidd er af Lenín Moreno, verið verulega andsnúin veru Assange í sendiráðinu og eru njósnir gegn Assange sagðar hafa færst í aukana eftir að hann tók við völdum.



Bandaríkin hafa ákært Assange fyrir fjölda brota og hafa farið fram á að hann verði framseldur frá Bretlandi. Beiðni þeirra verður tekin fyrir í febrúar.

 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×