Selfyssingar unnu ótrúlegan sigur í framlengingu á sunnudagskvöldið í Schenker-höllinni að Ásvöllum, 30-32, eftir að lenda 26-21 undir í seinni hálfleik.
Lærisveinar Patreks Jóhannessonar eru nú í þeirri stöðu að geta unnið Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli en Selfoss hefur aldrei unnið titil í handbolta. Síðast lék liðið til úrslita árið 1992
Selfyssingar segjast geta selt tvöfalt magn miða léttilega en um 1.000 Selfyssingar hafa mætt á útileikina tvo í Hafnarfirðinum. Staðan er þó einfaldlega þannig að ekki nema 600 af 8.000 íbúum bæjarins geta upplifað þennan mögulega draum annað kvöld.
Miðaverðið hefur ekki verið hækkað þrátt fyrir mikla eftirspurn en miðinn á leikinn kostar 2.000 krónur.
Sumir Selfyssingar hafa látið sér það nægja að standa og horfa inn um glerdyrnar við enda stúkunnar og þá hafa aðrir mætt í íþróttahúsið og horft á leikinn á sjónvarpsskjá inn í skólastofum sem eru við salinn.