Bíó og sjónvarp

Tugþúsundir kölluðu eftir því að Netflix fjarlægði þátt sem er á Amazon Prime

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Michael Sheen og David Tennant leika aðalhlutverkin.
Michael Sheen og David Tennant leika aðalhlutverkin. Amazon Prime
Yfir tuttugu þúsund kristnir andstæðingar sjónvarpsþáttarins Good Omens skrifuðu undir áskorun þess efnis að Netflix fjarlægi þáttinn úr efnisveitu sinni. Gallinn er hins vegar sá að það er samkeppnisaðili Netflix, Amazon Prime, sem framleiðir og dreifir þáttunum.

Þættirnir eru byggðir á skáldsögu Terry Pratchett og Neil Gaiman frá árinu 1990 og fjalla um púkann Crowley og engilinn Aziraphale sem vinna í sameiningu að því að koma í veg fyrir heimsendi.

Eitthvað hafa þættirnir farið öfugt ofan í kristnu samtökin US Foundation for a Christian Civilisation en rúmlega tuttugu þúsund manns skrifuðu undir áskorun þess efnis að þátturinn verði fjarlægður af Netflix. Búið er að eyða undirskriftarsöfnunnni.

Helsta umkvörtunarefni þeirra sem kvörtuðu var að með þáttunum væri djöfladýrkun gerð léttvæg og að rödd Guðs í þáttunum væri konurödd en leikkonan Frances McDormand talar fyrir hinn almáttuga Guð í þáttunum.

Neil Gaiman, sem skrifaði handritið að þáttunum og kom að framleiðslu þeirra, grínaðist með málið á Twitter þar sem hann bað alla um að láta stuðningsaðila undirskriftarsöfnunarinnar ekki vita að þeir væru að beina sjónum sínum að vitlausri efnisveitu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×