Erlent

Táragasi og gúmmíkúlum beitt á mótmælendur eftir ávarp rússnesks þingmanns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Um tíu þúsund mótmælendur eru taldir hafa safnast saman í Tbilisi þegar mest var í kvöld.
Um tíu þúsund mótmælendur eru taldir hafa safnast saman í Tbilisi þegar mest var í kvöld. Vísir/Getty
Lögregla í Tbilisi höfuðborg Georgíu hefur í kvöld beitt táragasi og skotið gúmmíkúlum til að hafa hemil á mótmælendum sem reyndu að brjótast inn í þinghúsið eftir að rússneskur þingmaður ávarpaði þar samkomu í dag.

Í frétt Guardian segir að nær sjötíu manns, þar af 39 lögreglumenn og 30 almennir borgarar, hafi verið fluttir slasaðir á sjúkrahús af mótmælunum. Mótmælendur hafa skipt þúsundum í miðborg Tbilisi en um þrjú þúsund héldu mótmælunum enn til streitu eftir að lögregla sprautaði táragasi á mannmergðina.

Efnt var til mótmælanna vegna umdeilds ávarps Sergie Gavrilov, rússnesks þingmanns, sem var viðstaddur árlegan fund þingmanna frá löndum þar sem meirihluti þjóðarinnar heyrir undir rétttrúnaðarkirkjuna.

Mótmælendur kröfðust þess að Irakli Kobakhidze, forseti georgíska þingsins, segði af sér eftir að Gavrilov flutti ávarp sitt á rússnesku úr sæti þingforsetans. Þá greip einnig mikil reiði um sig innan raða stjórnarandstöðuþingmanna sem, líkt og mótmælendurnir, eru afar andsnúnir afskiptum Rússa af Georgíu.

Milliríkjasamband Rússlands og Georgíu hefur verið afar stirt undanfarin ár en ríkin greinir á um yfirráð yfir tvö héruð, Suður-Ossetíu og Abkasíu, sem áður tilheyrðu Georgíu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.