Vísir hefur tekið saman nokkrar staðreyndir um landslið Barein og má finna þær hér fyrir neðan.
- Svona komst Barein á HM 2019 -
Barein tryggði sér sæti í úrslitakeppni HM í ár með því að ná öðru sætinu í Asíukeppninni fyrir ári síðan. Barein náði öðru sætinu í milliriðli keppninnar á eftir Katar og það færði liðinu sæti í undanúrslitunum en fjórar efstu þjóðirnar í Asíukeppninni 2018 fengu þátttökurétt á HM.
Barein vann 24-22 sigur á Sádí Arabíu í undanúrslitaleiknum en tapaði síðan með tveggja marka mun, 31-33, í úrslitaleiknum á móti Katar. Það tap breytti því ekki að Barein var komið inn á HM.
Það var einmitt Guðmundur Guðmundsson, núverandi þjálfari íslenska landsliðsins, sem þjálfaði Bareina fyrir ári síðan og hjálpaði því Barein inn á HM. Nokkrum mánuðum síðar endurtók hann síðan leikinn með íslenska landsliðið.

Þetta er aðeins þriðja heimsmeistaramótið í sögu handboltalandsliðs Barein en þeir voru fyrst með á HM í Svíþjóð árið 2011. Barein er með í annarri keppninni í röð en liðið komst líka á HM í Frakklandi fyrir tveimur árum síðan.
Barein hefur endað í 23. sæti af 34 þjóðum á báðum heimsmeistaramótum sínum til þessa. Á HM 2001 vann Barein tíu marka sigur á Ástralíu, 33-23, í leiknum um 23. sætið en fyrir tveimur árum þá unnu Bareinar sex marka sigur á Angóla, 32-26, í leiknum um 23. sætið.
Barein vann tvo af sjö leikjum sínum á HM 2011 (Egyptaland og Ástralía) en aðeins einn af sjö leikjum á HM 2017 (Angóla). Markatala liðsins batnaði töluvert á milli móta, var -58 á HM 2001 en -41 á HM 2017.
- Síðasta stórmót Barein -
Barein er silfurliðið frá síðustu Asíukeppni eftir að hafa slegið Sádí Aarba út í undanúrslitunum. Þeir réðu ekki við Katar í úrslitaleiknum en náðu engu að síður sínum besta árangri í Asíukeppni.
Barein hefur reyndar endað í öðru sæti á síðustu þremur Asíukeppnum, alltaf eftir tap á móti Katar, og hefur unnið alls unnið fern silfurverðlaun í síðustu fimm keppnum. Fyrir Asíukeppnina 2010 var besti árangur bareinska landsliðsins bronsverðlaun frá Asíukeppninni 1995.
Þetta er líka annað heimsmeistaramótið í röð hjá Barein en liðið varð í 23. sæti á HM 2017.

Íslenska handboltalandsliðið hefur aldrei mætt Barein á stórmóti en þetta verður aftur á móti sextándi leikur íslenska landsliðsins á móti Asíuþjóð á HM eða Ólympíuleikum.
Barein verður sjötta Asíuþjóðin sem íslenska liðið mætir á stórmóti en liðið hefur áður spilað við Japan, Suður-Kórea, Katar, Sádí Arabía og Kúvæt.
Íslenska landsliðið hefur unnið átta af fjórtán leikjum sínum á móti Asíuþjóðum á stórmótum en sex leikjanna hafa tapast. Á heimsmeistaramótum hefur Ísland unnið sex af níu leikjum sínum gegn þjóðum frá Asíu.
Ísland hefur unnið sex síðustu leiki sína við Asíuþjóðir á HM eða alla leiki sína frá og með HM í Kumamoto 1997.

Allir leikmenn liðsins spila í heimalandinu og þetta eru langt frá því að vera þekktustu handboltamenn í heimi.
Leikstjórnandinn Husain Al-Sayyad er aðalmaðurinn í sóknarleik Barein og er bæði sá sem hefur skorað flest mörk (13) og gefið flestar stoðsendingar (7) í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Hann er líka leikjahæsti leikmaður liðsins. Husain Al-Sayyad er ekki hár í loftinu en eldfljótur og útsjónarsamur.
Mohamed Habib er næstmarkahæsti leikmaður bareinska liðsins en hann er vítaskytta liðsins og hefur nýtt öll tíu vítin sín á mótinu. 10 af 11 mörkum hans og 11 af 12 skotum hans hafa komið af vítalínunni.
Mohamed Abdulhusain hefur líka spilað vel í marki liðsins og hefur verið með tólf skot varin í báðum leikjum liðsins.

Þjálfari Barein er hinn 46 ára gamli Íslendingur Aron Kristjánsson en hann er á sínu fyrsta stórmóti með lið Bareina. Aron hefur mikla reynslu af þjálfum, bæði með félagslið og landslið. Hann hefur þjálfað félagslið í Danmörku og Íslandi og þá þjálfaði hann íslenska landsliðið í fjögur ár.
Aron tók við liðinu af Guðmundi Guðmyndssyni alveg eins og hann gerði hjá íslenska landsliðinu árið 2012. Guðmundur hafði þá komið Barein inn á HM en þegar Aron tók við íslenska landsliðinu árið 2012 hafði Guðmundur einnig komið liðinu inn á HM.
Aron Kristjánsson er að fara á sitt fimmta stórmót á ferlinum en hann fór með íslenska landsliðið á fjögur stórmót frá 2012 til 2016. Besti árangurinn var fimmta sætið sem liðið náði á EM 2014 en íslenska liðið endaði í 11. sæti (2015) og 13. sæti (2013) á heimsmeistaramótum sínum undir stjórn Arons.