Innlent

Málverkið af Bjarna ekki í fundarherberginu fræga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fundarherbergið fræga í Höfða í dag. Stólarnir og borðið eru enn á sínum stað en búið að fjarlægja myndina af Bjarna af veggnum. Í staðinn er málverk eftir Ásgrím Jónsson.
Fundarherbergið fræga í Höfða í dag. Stólarnir og borðið eru enn á sínum stað en búið að fjarlægja myndina af Bjarna af veggnum. Í staðinn er málverk eftir Ásgrím Jónsson. Stöð 2/Sigurjón Ólason.

Mike Pence fær ekki að sjá málverkið af Bjarna Benedikssyni í fundarherberginu fræga í Höfða, þegar hann skoðar í dag vettvang leiðtogafundarins árið 1986. Sérstök skoðunarferð varaforseta Bandaríkjanna um húsið er á dagskrá kl. 15.35 að loknum fundi um viðskiptamál.

Reagan og Gorbatsjof í fundarherbeginu í Höfða á opinberri ljósmynd af leiðtogafundinum 1986. Málverkið af Bjarna Benediktssyni hefur síðan verið tilefni sérkennilegrar togstreitu.Mynd/Hvíta húsið.

Eftir að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði boðið Pence velkominn í móttökusal Höfða, og þeir sest í sömu sætin þar sem formleg mynd var tekin af þeim Reagan og Gorbatsjof, brá kvikmyndatökumaður Stöðvar 2, Sigurjón Ólason, sér rétt sem snöggvast inn í fundarherbergið við hliðina til að athuga hvað væri á veggnum.

Málverkið af Bjarna Benediktssyni. Það málaði Svala Þórisdóttir Salman árið 1971.

Nei, málverkið af Bjarna var ekki þar og hvergi sjáanlegt í Höfða. Það er haft í geymslu hjá Listasafni Reykjavíkur, samkvæmt upplýsingum Ólafar Kristínar Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafnsins. Þess í stað er núna á veggnum olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson „Tjörnin séð úr Þingholtunum“, en Ólöf Kristín segir reglulega skipt um málverk í Höfða. Í þessu herbergi sátu leiðtogar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna tveir á einkafundi fyrir 33 árum, ásamt túlkum sínum og riturum, og lögðu grunninn að endalokum kalda stríðsins og mestu kjarnorkuafvopnun sögunnar, - undir haukfránum augum Bjarna. Margir biðu því spenntir að sjá hvort myndin af Bjarna fengi að vera þar í dag. 

Málverk Ásgríms Jónssonar, Tjörnin séð úr Þingholtunum, er núna á veggnum.

Í frétt Vísis fyrr í dag var rakið hvernig málverkið af Bjarna Benediktssyni, fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra, sem er svo áberandi á sögulegum ljósmyndum frá fundi þeirra Reagans og Gorbatsjofs í Höfða árið 1986, hefur síðan verið tilefni furðulegrar togstreitu innan borgarstjórnar Reykjavíkur.Það virðist nefnilega sem það ráðist af því hvort það eru sjálfstæðismenn eða vinstri menn sem fari með völdin í borginni hvort málverkið er haft uppi á veggnum í Höfða eða haft í lokaðri geymslu, hulið almenningi. Þannig hvarf myndin úr Höfða árið 1994 þegar R-listinn náði meirihlutanum í borginni undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þegar sjálfstæðismenn komust á ný til valda árið 2006 var það eitt þeirra fyrsta verk að setja málverkið upp aftur með sérstakri viðhöfn. Það hvarf svo aftur af veggnum næst þegar vinstri menn náðu meirihlutanum í borgarstjórn.Í þessari frétt Stöðvar 2 fyrir fimm árum kom málverkið af Bjarna við sögu:


Tengdar fréttir

Forkólfar Sjálfstæðisflokksins hengja Bjarna Ben upp á ný

Fjölmenni var á hátíðlegri athöfn í Höfða á föstudagskvöld þegar málverk af Bjarna Benediktssyni, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, var hengt upp á ný. Helstu forkólfar Sjálfstæðisflokksins voru meðal þeirra sem heiðruðu minningu Bjarna Benediktssonar.

Verður málverkið af Bjarna uppi á veggnum í Höfða?

Það virðist sem það ráðist af því hvort það eru sjálfstæðismenn eða vinstri menn sem fari með völdin í borginni hvort málverkið er haft uppi á veggnum eða haft í lokaðri geymslu, hulið almenningi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.