Handbolti

Guðrún Brá hefur leik í Marrakesh 

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Mynd/Golfsamband Íslands
Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni hefur leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í  Marokkó á sunnudaginn. Leiknir verða fimm hringir á Amelkis-golfvellinum í úthverfi Marrakesh og eru alls 115 kylfingar skráðir til leiks.

Niðurskurður verður eftir fjórða hring þar sem sextíu efstu kylfingarnir berjast um eitt af efstu 25 sætunum sem veitir fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári. Með Guðrúnu í ráshóp á sunnudaginn eru þær Lauren Horsford frá Englandi og hin finnska Niina Liias og verða þær ræstar út klukkan 9.40 um morguninn að staðartíma.

Guðrún Brá sem varð Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta sinn fyrr á þessu ári er að reyna í annað sinn að komast inn á Evrópumótaröðina, sterkustu mótaröð Evrópu. Hún lenti í 53. sæti á sama tíma fyrir ári og var sex höggum frá því að öðlast þátttökurétt. Þess í stað keppti hún á LETA-mótaröðinni, næst sterkustu mótaröð Evrópu á þessu ári, hennar fyrsta sem atvinnukylfingur.

Bestum árangri náði hún undir lok tímabilsins þegar hún deildi 17. sæti í Barcelona eftir að hafa verið meðal efstu kylfinga fyrir lokahringinn.

Takist henni að komast inn á Evrópumótaröðina verða tveir íslenskir kylfingar á mótaröðinni á næsta ári. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, hefur leikið á mótaröðinni undanfarin tvö ár með góðum árangri.

Þá verður hún fjórði íslenski kylfingurinn sem kemst á þessa sterkustu mótaröð Evrópu ef henni tekst að enda meðal 25 efstu kylfinga á mótinu.

Ólöf María Jónsdóttir úr Keili sem varð á sínum tíma fjórum sinnum Íslandsmeistari í höggleik kvenna varð sú fyrsta til að komast inn á mótaröðina og lék í tvö ár.

Þá hefur Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur tekið þátt í mótum á Evrópumótaröðinni með reglulegu millibili undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×