Skoðun

Dauðinn og jólin

Arnar Sveinn Geirsson skrifar
Það er allt í einu kominn desember, sem þýðir að það styttist í jólin og allt sem þeim fylgir. Samverustundir með fjölskyldu og vinum, jólaboð, góður matur, góður félagsskapur og oftast mikil gleði. En á þessum tíma rifjast það líka upp fyrir mörgum hverja vantar í þessar samverustundir. Hverja vantar í gleðina. Þessi tími árs getur í senn verið yndislegur og erfiður. Árin eftir að mamma dó var þetta erfiðasti tími ársins fyrir mig. Allt í einu bakaði ég ekki smákökur með mömmu. Allt í einu gaf ég mömmu enga gjöf úr skólanum. Allt í einu heyrði ég ekki hláturinn hennar mömmu. Allt í einu flæddi yfir mig öll sorgin og allur söknuðurinn. Áfallið sem ég hafði reynt, og tekist, að hundsa var allt í einu að gera sitt besta til þess að fá að komast út og upp á yfirborðið.

Við verðum öll fyrir einhvers konar áföllum á lífsleiðinni. Áföllin eru af ýmsum toga og misalvarleg, en eiga það flest sameiginlegt að sjaldnast er maður undir þau búinn. Áfall getur komið eins og þruma úr heiðskíru lofti, en stundum getur það legið í loftinu í einhvern tíma. Sjálfur varð ég fyrir tveimur erfiðum áföllum á innan við ári. Fyrst þegar amma dó og síðan, miklu þyngra áfalli, þegar mamma dó. Allt í einu hafði líf mitt breyst að eilífu. Ég myndi aldrei kalla á mömmu aftur. Aldrei fá knús frá henni aftur. Hvernig tekst einhver á við áfall af þessu tagi? Hvernig átti ég, 11 ára gamall, að takast á við áfall af þessu tagi? Hvernig heldur maður áfram að lifa lífinu?

Ég, eins og margir aðrir í sömu sporum, fór að berjast við að gleyma þessari lífsreynslu. Þurrka út þennan hræðilega atburð sem olli mér svo gríðarlega mikilli tilfinningalegri vanlíðan. Í þeirri örvæntingu minni að gleyma, og til að líða betur, bjó ég mér til nýtt sjálf. Aðra persónu. Áfallið réðist á persónuna sem ég var og þess vegna þurfti ég að búa mér til nýja persónu. Ég tengdi þá persónu sem ég var við áfallið. Ég þráði að hætta að líða illa og vera stöðugt minntur á þetta hræðilega áfall. Það eina í stöðunni var að setja upp grímu sem væri mitt nýja, og betra, sjálf. Grímurnar geta verið alls konar. Sumir eru hressir og kátir, aðrir sífellt reiðir og pirraðir, og enn aðrir setja upp trúðagrímu og verja sig með húmornum. Grímurnar eru jafn margar og einstaklingarnir mismunandi. Jafn margar og áföllin eru mismunandi. Jafn margar og aðstæður fórnarlambsins eru mismunandi. Ég setti upp grímu sem var jákvæð, glöð og sterk. Það var það sem ég taldi að væri það besta í stöðunni. Það besta til þess að hætta að líða illa og geta haldið áfram að lifa lífinu.

Fyrir ekki svo löngu síðan bjuggu heilu fjölskyldurnar undir sama þakinu. Aðstæður voru hreinlega þannig að synir og dætur, pabbar og mömmur, afar og ömmur og jafnvel langafar- og ömmur höfðu engan annan kost en að deila húsnæði. Yngstu kynslóðirnar bjuggu því með þeim elstu og nálægðin milli þeirra því talsvert meiri en í dag. Fyrir vikið var dauðinn mikið nær öllum á heimilinu. Afinn féll frá, jafnvel á heimilinu að öllum viðstöddum. Það var gangur lífsins. Í dag höfum við fjarlægst þessa tengingu við dauðann og því kannski erfiðara að horfast í augu við hann. Erfiðara að vita af honum. Að vita að hann sé þarna. Árið 2003, þegar mamma dó, var ég engin undantekning. Ég var varla búinn að átta mig á því að amma væri dáin enda ekki ár liðið. Ég var ekki í neinni tengingu við dauðann. Ég átti enga mynd af dauðanum í höfðinu á mér. Og í framhaldinu gerði ég allt sem í mínu valdi stóð til þess að forðast að ræða dauðann og reyndi eins og ég gat að vita ekki af honum. En gætum við undirbúið okkur undir áfall eins og það að einhver nákominn manni falli frá? Hefði ég getað komið í veg fyrir sorgina? Getum við tekist á við dauðann þannig að hann og sorgin sem honum fylgir sé jafn eðlilegur partur af lífinu og það að draga andann?

Við munum aldrei komast hjá því að upplifa sorgina sem fylgir því að missa einhvern nákominn, enda ættum við ekki að vilja það. En það er margt sem við hins vegar getum komist hjá og komið í veg fyrir. Við getum komist hjá samviskubitinu sem fylgir áfallinu, af því það getur verið óbærilegt. Sakna ég ekki nóg? Elskaði ég ekki nóg? Af hverju græt ég ekki meira? Við getum verið viss um að við séum ekki ein, af því oft viljum við halda að það sé enginn sem hafi liðið eins og okkur. Við getum komist hjá hræðslunni og kvíðanum sem áfallinu fylgir. Við getum fjarlægt tabúið sem dauðinn er. Við getum verið betur undir það búin að takast á við áfall sem við lendum í. Með því að tala um dauðann og því sem honum fylgir. Með því að tala um þau áföll sem við lendum í og þann tilfinningagraut sem borinn er á borð fyrir okkur í kjölfarið. Og þá, fyrst þá, getum við byrjað á að takast á við dauðann og því sem honum fylgir þannig að hann verði eins eðlilegur partur af lífinu og það að draga andann.

Dauðinn á ekki að vera eitthvað sem við óttumst. Dauðinn á að vera tenging okkar við lífið. Hann á að minna okkur á það hversu heppin við erum að vera á lífi. Hann á að minna okkur á það að lifa hvern dag eins og hann sé okkar síðasti. Af því að við vitum aldrei hvenær sá síðasti kemur.

Leyfum okkur að minnast þeirra sem hafa kvatt okkur. Leyfum okkur að sakna þeirra. Leyfum þeim að vera hluti af okkur. Verum ekki hrædd um að það muni ræna okkur gleðinni af öllu hinu. Finnum þeim þess í stað farveg í gleðinni. Þannig lifnar minning þeirra við. Þannig tökum við sorgina, söknuðinn og erfiðleikana í sátt. Þannig, á endanum, tökum við dauðann í sátt.

Höfundur er fyrirlesari
Skoðun

Skoðun

Vald­níðsla

Áshildur Linnet,Bergur Brynjar Álfþórsson,Birgir Örn Ólafsson,Ingþór Guðmundsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.