Lífið

Maður verður að vera sæmilegur til samviskunnar

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
"Það er hvetjandi að vita að maður hafi valið söguefni sem hreyfa við fólki,“ segir Gerður Kristný.
"Það er hvetjandi að vita að maður hafi valið söguefni sem hreyfa við fólki,“ segir Gerður Kristný. Fréttablaðið/Eyþór
Sálumessa er ný ljóðabók eftir Gerði Kristnýju. Þetta er ljóðabálkur þar sem sungin er messa yfir konu sem féll fyrir eigin hendi, svo þjáning hennar og líf fái ekki að gleymast. „Sálumessa hefur vonandi þýðingu fyrir þann sem les hvort sem hann þekkir forsöguna eða ekki. Ljóðmælandi er haugbúi sem dvelur við hlið hinnar látnu og lítur yfir sögusviðið. Hann rifjar upp líf hennar, fer yfir örlög hennar og veltir fyrir sér hvernig refsingu kvalari hennar ætti skilið,“ segir Gerður.

Snemma árs 2003 birti Gerður, sem þá var ritstjóri Mannlífs, grein eftir konu um skelfilegt kynferðis­ofbeldi sem elsti bróðir hennar hafði beitt hana frá því hún var 7 ára þar til hún var 14 ára. Sálumessa fjallar um þessa konu og þjáningar hennar.

Gerður hafði á þessum tíma skrifað nokkuð um kynferðis­ofbeldi. „Þegar ég var í blaðamennsku fannst mér áhugaverðast að skrifa um heiminn sem við góðborgararnir verðum tæpast vör við og tók til dæmis viðtöl við dæmda morðingja inni á Litla-Hrauni en líka þolendur kynferðisofbeldis af báðum kynjum. Ég hafði þá þegar áttað mig á því hvað umfjöllun um kynferðisofbeldi var viðkvæm og hvað mikil þöggun ríkti um það,“ segir Gerður. „Ég tók alvarlega á þessum málefnum strax árið 1994 þegar ég hóf störf í blaðamennsku og tók viðtal við konu sem hafði verið hópnauðgað á Þjóðhátíð í Eyjum. Saga hennar sat í mér. Árið 2001 skrifaði ég síðan grein um Kristínu Gerði Guðmundsdóttur, sem seinna varð fyrirmynd að persónu í kvikmyndinni Lof mér að falla. Hún hafði orðið fyrir kynferðisofbeldi sem barn, ánetjaðist eiturlyfjum, stundaði vændi til að fjármagna neysluna, varð síðan veik á geði og svipti sig lífi. Við greinarskrifin talaði ég við ættingja hennar og vini en nýtti mér líka heimildir. Ég tók mér góðan tíma til að vinna þessa grein, enda átti Kristín Gerður það skilið.

Ég vissi að það var þögull hópur þarna úti sem fylgdist með skrifunum mínum þótt ég yrði lítið vör við hann en ég vissi líka ástæðuna fyrir þessari þögn. Þess þá heldur fannst mér ástæða til að halda áfram að fjalla um kynferðisglæpi. Fyrr eða síðar hlyti viðhorf samfélagsins til þeirra breytast.“

Ný ljóðabók Gerðar Kristnýjar er þriðji ljóðabálkur hennar um konu sem beitt er ofbeldi. Fréttablaðið/Eyþór

Sláandi saga

Það var rétt fyrir jólin árið 2002 sem konan, sem Gerður hefur nú samið um Sálumessu, hringdi og spurði hvort hún vildi lesa grein sem hún hefði skrifað. Hún átti fjóra eldri bræður og hafði sá elsti misnotað hana kynferðislega. Þessar pyntingar höfðu mótað líf hennar. „Nú var hún rúmlega þrítug. Hún var veik á geði, hafði því dvalið inni á geðdeild og nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi.“

Konan sendi Gerði Kristnýju greinina til yfirlestrar. „Hana langaði til að koma sögu sinni á framfæri í Mannlífi en vildi hitta mig áður en greinin birtist. Ég flaug norður til Akureyrar þar sem við áttum saman ljúfa stund um miðjan dag skömmu fyrir jól í blokkaríbúð þar sem hún bjó. Konan var róleg í tíðinni og döpur en þó var hugur í henni. Ég lagði fyrir hana örfáar spurningar til að fylla inn í eyður í frásögninni en annars var greinin ákaflega vel skrifuð. Þetta var kona góðum gáfum gædd. Hún hlakkaði til að fá greitt fyrir greinina og sagðist ætla að kaupa sér föt fyrir launin. Ég man að hún gerði eina athugasemd við leiðréttingu sem ég hafði gert á greininni. Þar stóð að hún væri á fertugsaldri. Frekar vildi hún að ég skrifaði að hún væri rúmlega þrítug. Ég breytti þessu vitanlega.

Konan fór fram á að nafn sitt birtist ekki í greininni. Hún vildi heldur ekki að við mynduðum hana þannig að sæist framan í hana. Myndin sem birtist með greininni var því tekin af baksvip hennar en jafnframt lánaði hún myndir af sér í æsku. Trúnaður minn var við hana og ég fór í einu og öllu eftir því sem hún fór fram á.“

Í greininni, sem er sláandi lestur, segir konan á einum stað: „Með mér bærist sú von að fara kannski í háskólann eftir tæpt ár en ég þori ekki að hugsa mikið um það því mér finnst enn líklegt að stutt sé þar til ég dey.“

„Já, þetta er verulega sláandi og sýnir okkur rétt eina ferðina hræðilegar afleiðingar kynferðisofbeldis. Sumir lifa það ekki af,“ segir Gerður.

Ægileg tíðindi

Mannlíf var komið í prentsmiðju þegar Gerður Kristný fékk símtal frá yngsta bróður konunnar. „Hann sagði mér að systir hans hefði fallið fyrir eigin hendi. Ég hlustaði þögul á hann og reyndi að ná taki á hugsunum mínum á meðan. Þetta voru ægileg tíðindi. Ég man að hann sagði að sig hefði grunað þegar hún var lítil að eitthvað ætti sér stað milli hennar og elsta bróðurins því hann var alltaf að draga hana afsíðis. Hann sagði líka að henni hefði þótt gott að vinna með mér. Þetta var því ósköp hlýlegt samtal. Síðan hringdi mágkona konunnar og spurði hvort hún mætti fá launin hennar upp í útfararkostnað sem væri mikill. Ég taldi það allt í lagi og lagði féð inn á reikningsnúmer sem hún gaf mér upp.

Þegar fór að líða að því að blaðið kæmi út fór ég að heyra bæði frá fjölskyldunni og prestinum þeirra að þeim þætti ekki við hæfi að blaðinu væri dreift í búðir á kistulagningardeginum og reyndar mislíkaði fólkinu að greinin myndi birtast. Ég man að undir dánartilkynningunni í Morgunblaðinu birtust nöfn allra bræðranna – líka þess elsta. Mannlíf kom út og þessi saga var í fréttum RÚV um kvöldið.“

Kærð til siðanefndar

Þegar nær þrír mánuðir voru liðnir frá því að greinin kom út kærði yngsti bróðirinn Gerði Kristnýju til siðanefndar Blaðamannafélagsins vegna greinarinnar og sömuleiðis Ríkissjónvarpið fyrir að hafa fjallað um greinina. Þá var Gerður stödd í útlöndum í svokölluðu þriggja mánaða leyfi sem blaðamenn eiga rétt á. Hún skrifaði því bréf til siðanefndar og bað um að málið yrði tekið til skoðunar þegar hún kæmi heim. „Ég mætti síðan á fund siðanefndar í byrjun júní. Í nefndinni sátu fjórir karlar og ein kona. Þorsteinn Gylfason var formaður. Á fundinum kom fram að fréttastjóri Ríkissjónvarpsins hafði beðist afsökunar á að hafa birt frétt um grein konunnar. Það fannst mér allt í lagi. Fréttamenn RÚV þekktu konuna ekki og höfðu aldrei hitt hana. Ég hafði hins vegar kynnst henni og leit á hana sem skjólstæðing minn.

Á fundinum svaraði ég spurningum nefndarinnar og afsökunarbeiðni fréttastofu RÚV lá á borðinu fyrir framan mig. „Svona geturðu gert þetta,“ sagði Þorsteinn og otaði plöggunum að mér. Ég taldi mig ekki þurfa að biðjast afsökunar á að hafa hlustað á þolanda kynferðis­ofbeldis og birt sögu hans.

Í kærunni fór bróðirinn um víðan völl. Honum mislíkaði til að mynda að ég skyldi hafa lagt peninga inn á bankareikning hjá einstaklingi í fjölskyldunni og kallaði þá 30 silfurpeninga. Upphæðinni, sem greidd hafði verið fyrir greinina, hafði hann skipt í klink, sett í plastpoka og skilið hann eftir á skrifstofu Fróða sem gaf út Mannlíf. Ég lagði peningana inn á Kristínarsjóð, sjóð kenndan við Kristínu Gerði Guðmundsdóttur sem er til að styðja konur sem leiðst hafa út í vændi. Bróðirinn var afar reiður yfir því að ég hefði birt grein eftir veika systur hans. Á fundi með siðanefnd var ég spurð hvort ég hefði ekki leitað til lækna hennar við vinnslu greinarinnar. Ég átti sem sagt að hafa lækni með í ráðum, eins fúsir og þeir eru nú til að tala um skjólstæðinga sína. Blaðamannafélagið ætti þá ef til vill að hafa lækni í starfi til að veita fólki uppáskrift þess efnis að því sé óhætt að segja sögu sína.

Ég velti því fyrir mér til hvers fjölmiðill væri ef hann má ekki gefa þeim rödd sem þaggað er niður í. Ég reyndi að útskýra þetta á fundinum með siðanefnd, en fann mjög skýrt að engu máli skipti hvað ég segði, fólkið hafði þegar gert upp hug sinn. Ég fékk síðan þyngsta úrskurð siðanefndar Blaðamannafélagsins í afmælisgjöf 10. júní 2003. Þar var látið að því liggja að ég hefði sjálfsvíg manneskju á samviskunni. Svona var litið á blaðamennsku árið 2003. Maðurinn sem beitti systur sína kynferðisofbeldi hefur hins vegar aldrei verið dæmdur fyrir þessa glæpi.“

Bókin sem breytti svo mörgu

Dóma siðanefndar ber að birta í þeim fjölmiðli sem fær dóminn á sig. Þessi dómur birtist hins vegar ekki í Mannlífi. „Það hvarflaði ekki að mér,“ segir Gerður Kristný. „Allur sá sirkus sem varð í kringum þetta mál var staðfesting á því hversu eldfimt þetta málefni var og hvað þöggunin var mikil. Konan var ekki lengur á meðal okkar en það var enn hægt að ná sér niðri á mér.“

Það sem virtist vera ósigur Gerðar Kristnýjar átti þó eftir að snúast upp í óvæntan sigur. „Um haustið sama ár hringdi Thelma Ásdísardóttir í mig. Við hittumst á Borginni og hún sagði mér frá pabba sínum sem brotið hafði árum saman á henni og systrum hennar. Hann hafði verið kærður fyrir glæpina en verið sýknaður fyrir Hæstarétti. Thelma vildi skrifa pistla í Mannlíf eða fá þar við sig viðtal. Ég fór heim og velti því fyrir mér hvort það væri nokkurt vit. Thelma gæti jú gengið í sjóinn þegar viðtalið birtist. Vissara var að láta svona mál bara eiga sig. Þá áttaði ég mig á því að þetta voru auðvitað áhrifin af siðanefndarúrskurðinum og ákvað að ég skyldi ekki læra nokkurn skapaðan hlut af honum. Maður verður náttúrlega að vera sæmilegur til samviskunnar. Ég hristi af mér úrskurðinn og lét vaða. Ég hringdi í Thelmu og sagði: Á ég ekki bara að skrifa um þig bók? Og það gerði ég. Myndin af pabba – Saga Thelmu kom svo út árið 2005.

Með bókinni breyttist býsna margt. Tveimur árum eftir að ég fékk úrskurðinn frá siðanefnd fékk ég Blaðamannaverðlaunin fyrir Myndina af pabba og spurði sjálfa mig: Hvað gerðist þarna í millitíðinni? Það sem gerðist var að Thelma mætti á sjónarsviðið og útskýrði fyrir fólki afleiðingar kynferðisofbeldis á börn. Hún var til staðar og gat tekið það hlutverk að sér. Aðrir höfðu hins vegar ekki séð aðra leið út úr vanlíðan sinni en að flýta fyrir sér. Hjálpi mér, hvað það er dapurlegt.“

Viðtal við morðingja

Sálumessa er þriðji ljóðabálkur Gerðar Kristnýjar, á eftir Blóðhófni og Drápu, sem fjallar um konu sem beitt er ofbeldi. Blóðhófnir er saga Gerðar Gymisdóttur sem Skírnir, skósveinn Freys, sótti til Jötunheima handa húsbónda sínum. Drápa segir frá morði sem framið var í Reykjavík árið 1988. Sú saga fór ekki hátt við útkomu Drápu en í ensku útgáfunni, sem er nýkomin út, er að finna grein eftir dr. Öldu Valdimarsdóttur og Guðna Elísson þar sem persónur verksins eru nefndar réttum nöfnum. Við samningu ljóðabálksins hafði Gerður Kristný dómskjöl til hliðsjónar en á sínum tíma hafði hún tekið viðtal við morðingjann, Braga Ólafsson, sem drap konu sína, hina 26 ára gömlu Grétu Birgisdóttur. „Bragi sat inni á Litla-Hrauni í tíu ár en eftir að hann kom aftur út seldi hann eiturlyf og vann við garða­úðun. Þá tók ég við hann viðtal. Hann bjó enn í húsinu þar sem hann hafði myrt konuna sína. Hann var hokinn og hávaxinn og hafði greinilega nefbrotnað því hann var með lið á nefi. Bragi sagði mér að hann hefði verið boxari um tíma í New York. Hann var með litla mynd af Grétu við rúmið sitt og sagðist bjóða henni góða nótt á hverju kvöldi.

Síðan leið og beið og einn daginn frétti ég að Bragi hefði sjálfur verið myrtur í sömu íbúð. Til hans kom maður sem ætlaði að kaupa af honum eiturlyf, þeim varð sundurorða og gesturinn stakk Braga til bana. Tvö morð höfðu því verið framin í þessu húsi. Þá varð ég mér aftur úti um dómskjölin og tók til við að yrkja Drápu. Það er sérkennilegt tungumál á dómskjölum, stíllinn getur verið svo hátíðlegur. Þar stendur til dæmis að húð sé uppþornuð eins og bókfell. Síðan sjást þar furðulega persónulegar upplýsingar um látið fólk en vitaskuld langar mig frekar til að vita hvað það síðasta var sem fór í gegnum huga þess en hversu mörg grömm lungun í því vógu. Ljóðmælanda Drápu fann ég í norskum dómskjölum frá 17. öld. Þá var fjöldi manns á eyjunni Vardö brenndur á báli fyrir galdra. Í skjölunum sést hvað fólkið hafði sterkar skoðanir á útliti og innræti Djöfulsins. Hann er svartklæddur, getur kippt af sér höfðinu og breytt sér í hund. Þennan ljóðmælanda leiddi ég fram og leyfði honum að segja mér sögu úr heimaborg minni Reykjavík.“

Drápa er komin út í Englandi, Danmörku og Noregi þar sem bókmenntagagnrýnendur tveggja dagblaða völdu hana eina af þremur bestu ljóðabókum Noregs árið 2016. Skáldsagan Hestvík og ljóðabókin Strandir komu út í Noregi í ár og sömuleiðis skáldsagan Smartís í Danmörku. „Það er hvetjandi að vita að maður hafi valið söguefni sem hreyfa við fólki,“ segir Gerður Kristný. Víst er að yrkisefnið í Sálumessu skiptir máli og á eflaust eftir að hreyfa við mörgum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.