Skoðun

Framsýn og ábyrg fjármálastjórn

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar
Eitt af mikilvægustu viðfangsefnum stjórnmálanna er ráðstöfun almannafjár. Á hinu pólitíska sviði er að sjálfsögðu tekist á um hvernig skipta skuli kökunni, hvað sé nauðsynlegt að fjármagna og hvað ekki. Öll ættum við þó að geta verið sammála um að fjármunum almennings skuli ráðstafað af ráðdeild og hagkvæmni. Til þess er okkur stjórnmálafólkinu treyst og ábyrgð okkar er því sannarlega mikil.

Í samstarfssáttmála meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur er skýrt kveðið á um ábyrgan og sjálfbæran rekstur borgarinnar. Skuldir skulu greiddar niður og tryggja svigrúm til fjárfestinga. Það er okkur mikið kappsmál að tryggja fyrirmyndar fjármálastjórn og teljum við það sjást skýrt nú þegar unnið er að áætlanagerð til næstu fimm ára. Sú vinna byggir á vandaðri sviðsmyndagreiningu sem unnin er af borgarstjórn í heild, þvert á flokka, auk lykilstarfsfólks borgarinnar. Eftir nokkur ár af hagvexti og uppgangi í samfélaginu getur reynst snúið að spá fyrir um þróun næstu ára. Í þeim aðstæðum er sem aldrei fyrr gríðarlega mikilvægt að vera búin undir ólíkar sviðsmyndir sem upp geta komið í íslensku efnahagslífi – og það erum við.

Okkur í meirihlutanum er um­hugað um góða, ábyrga og gegnsæja stjórnsýslu þar sem aðgengi að upplýsingum er gott og ákvarðanataka byggir á gögnum. Við höfum sett okkur það markmið að endurskoða stjórnsýsluna og gera nauðsynlegar breytingar, með sérstaka áherslu á fjármálastjórn í sinni víðustu mynd, þar með talin innkaup, eftirlit og áhættustýringu. Eftir góða undirbúningsvinnu mun liggja fyrir tillaga þess efnis á vettvangi borgarráðs í þessari viku.

Grunnstef pólitískrar umræðu vill því miður oft vera það að ala á vantrausti í garð þeirra sem halda um stjórntaumana. Þó skynsamleg og málefnaleg gagnrýni veiti stjórnvöldum mikilvægt aðhald gerir óþarfa úlfúð engum gagn, allra síst almenningi. Á meðan meirihlutinn í borgarstjórn leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórn, vandaðar áætlanir og breytta stjórnsýslu er ljóst að gagnrýni á því sviði er einfaldlega skot í myrkri.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×