Skoðun

Gömul og ný dómsmál

Óttar Guðmundsson skrifar
Í Íslandsklukku Halldórs Laxness er lýst hrakningum Jóns Hreggviðssonar í íslenska dómskerfinu á 18. öld. Honum var gefið að sök að hafa myrt böðul konungsins, sakfelldur og dæmdur til dauða. Aldrei tókst að sanna neitt á Jón og sjálfur neitaði hann sök. Honum tókst að komast undan og mál hans var tekið upp að nýju. Hann var sýknaður og kom aftur heim frjáls maður með hatt á höfði.

Aftur eru þungir dómar í meintu morðmáli til endurupptöku. Mín kynslóð man vel eftir Geirfinnsmálinu, leitinni að mönnunum tveimur, blaðamannafundum, Leirfinni, handtökum, réttarhöldum og dómum. Valdamenn kröfðust þess að málið yrði upplýst. Hópurinn í kringum Sævar heitinn Ciesielski hentaði sérlega vel í hlutverk sakborninga í þessu máli. Þau voru lokuð í einangrun, yfirheyrð af mikilli hörku og allir lögðust á eitt að fá fram játningu. Þegar þungir fangelsisdómar voru kveðnir upp í Hæstarétti héldu allir að málinu væri lokið.

Löngu síðar kynntist ég Sævari. Hann sagði mér frá viðskiptum sínum við réttvísina, einangrun, niðurlægingu og andlegum og líkamlegum pyntingunum. Brotið var á honum á öllum stigum málsins. Sævar líkt og Jón Hreggviðsson trúði á réttlætið innra með sjálfum sér og krafðist endurupptöku málsins. Allir sjá hversu fáránlegir dómarnir voru fyrir 40 árum. Aldrei tókst að sanna að brot hefðu verið framin. Bæði Jón Hreggviðsson og Sævar voru gripnir af því að þeir lágu vel við höggi. Réttvísina skorti sökudólga og þunga dóma til að sýna vald sitt og róa þjóðina. „Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti,“ hefði Jón Hreggviðsson sagt við Sævar. Vonandi eru það ekki orð að sönnu.




Skoðun

Sjá meira


×