Lífið

Settu saman lagalista að beiðni Stefáns Karls til að spila við öskudreifinguna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefán Karl og Steinunn Ólína voru gift í 16 ár.
Stefán Karl og Steinunn Ólína voru gift í 16 ár. vísir/valgarður
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ekkja leikarans Stefáns Karls Stefánssonar sem lést í síðasta mánuði eftir baráttu við krabbamein, birti í gær lagalista sem Stefán tók sérstaklega saman ásamt fjölskyldu sinni. Lagalistinn var spilaður þegar jarðneskum leifum Stefáns var dreift í fyrradag.

„Jarðneskum leifum Stefáns Karls var dreift í hlýju hafi í gær að hans ósk. Stefán hafði tekið saman lagalista yfir þau lög sem hann vildi að væru spiluð við það tækifæri. Börnin og ég lögðum líka til nokkur lög sem okkur fundust tilheyra okkur öllum,“ segir í Facebook-færslu Steinunnar.

Steinunn biður fyrir ástarkveðjur til allra og birtir auk þess lagalistann, sem söngkonan Magga Stína raðaði saman. Lögin eru aðgengileg á Spotify og hægt er að hlýða á þau hér. Á listanum eru lög með tónlistarmönnum á borð við Michael Jackson, Frank Sinatra, Elly Vilhjálms og Stuðmenn.

Stefán Karl lést þann 21. ágúst síðastliðinn, 43 ára að aldri. Hann hafði glímt við illvígt gallgangakrabbamein í tvö ár fram að andláti sínu og þykir hafa tekist á við veikindin af æðruleysi. Stefán lét eftir sig eiginkonu, Steinunni Ólínu, og fjögur börn.


Tengdar fréttir

Steinunn Ólína minnist Stefáns Karls í viðtali við People

Óhætt er að segja að Stefán Karl Stefánsson leikari hafi snert hjörtu þjóðarinnar undanfarin ár. Stefán Karl féll frá þann 21. ágúst en þessi 43 ára leikari hafði barist við illvígt gallgangakrabbamein í tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×