Lífið

„Vissi ekki hvort ég gæti notað nafnið mitt aftur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Svala Björgvins settist niður með Sindra Sindrasyni.
Svala Björgvins settist niður með Sindra Sindrasyni.
„Það er meira spennandi að vera lítill fiskur í stórri tjörn, það er miklu meira áhugavert,“ segir söngkonan Svala Björgvinsdóttir í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

Svala skrifaði á dögunum undir samning við plötufyrirtækið Sony.

„Þetta var mjög óvænt og kom í kjölfarið af Eurovision. Það er rosalega stór gluggi fyrir listamenn. Þetta er reyndar dreifingasamningur sem þýðir það að þeir dreifa tónlistinni.“

Þegar Svala horfir til baka og skoðar ferilinn þá er hún stoltust af því þegar hún söng inn á Anastasia teiknimyndina.

„Ég er mikill teiknimynda aðdáandi og ég held að ég hafi verið átján ára þegar ég söng inn á þá teiknimynd. Þessi lög hafa lifað svo lengi og ég er ennþá að taka þau á jólatónleikum og það eru ennþá litlir krakkar og fullorðið fólk að koma til mín og segjast elska þessi lög.“

Svala kemur árlega fram á jólatónleikum föður síns.
Hún segist vilja gera meira af því að syngja inn á teiknimyndir. Margir vita hver faðir Svölu Björgvins er, enginn annar en Björgvin Halldórsson en foreldrar hennar pressuðu ekkert á það að hún myndi fara út í tónlistabransann.

„Þau voru bara mjög ströng á því að ég myndi klára skólann. Mér voru boðnir samningar þegar ég var mjög ung í Bretlandi og í Evrópu við Virgin og Sony og allskonar fyrirtæki og það var bara alltaf þú verður að klára skólann og þegar ég væri búin að því mátti ég gera hvað sem er.“

Svölu var fljótt gert það ljóst að hún myndi ekki fá mikla hjálp í gegnum sambönd sín við föður sinn.

„Ég varð að suða í honum að fá að syngja þessi jólalög og hann vildi ekkert að ég væri að fara í bransann, ég væri bara barn. Um leið og ég var orðin svona þrettán ára þá sagði pabbi að ef ég ætlaði út í tónlistabransann þá myndi ég gera það, á mínum forsendum og ætti ekki að nota nafnið hans sem einhvern stokkpall. Ég og bróðir minn höfum alltaf þurft að gera hlutina á okkar eign forsendum þó að pabbi hafi alltaf verið til staðar en hann vildi að við myndum finna okkar eigin leið. Stundum heldur fólk að ég hafi það voðalega easy útaf því að pabbi minn er Björgvin Halldórsson. Stundum er það bara erfiðara því þú þarft jafnvel að sanna þig ennþá meira.“

Svala er spennt fyrir komandi plötu.
Hún segist alveg hafa hugsað að tónlistabransinn hafi ekki verið fyrir sig.

„Ég held að það hafi gerst í raun eftir Real Me tímabilið. Ég var í fimm ár hjá EMI og Priority og það var ofboðslega stórt ævintýri, miklir peningar og rosalega pressa frá öllum hérna heima. Ekki beint frá mér eða fyrirtækinu, bara pressa frá öllum hérna heima að ég væri að fara meika það. Eitthvað sem ég var ekki að hugsa, ég hugsaði bara að þetta væri risastórt tækifæri. Svo fer það allt til fjandans þegar plötufyrirtækið er selt og ég festist þar og við þurftum að fara í mál. Þetta er æðislega löng og leiðinleg saga en eftir það var ég brennd og ég gat ekki notað nafnið mitt í þrjú ár og vissi ekki hvort ég gæti notað nafnið mitt aftur. Ég hugsaði bara, er ég bara búin að vera og varð rosalega þunglynd og leið ekki vel. Ég vissi ekkert hvað ég vildi gera við líf mitt.“

Hún segir að í framhaldinu hafi andargiftin komið aftur.

„Ég byrja semja mikið með Krumma bróðir og fer mikið til Þýskalands og Bretlands og er að semja þar með vinum mínum. Þá kemur út Freedom platan og kemur hún út árið 2005, rétt eftir að ég vinn þetta mál við plötufyrirtækið. Svo fer ég bara í Steed Lord eftir það. Núna ákveð ég að fara alveg sóló og ég held að það hafi kviknað svolítið eftir Eurovision því ég fann bara fyrir því að fólk vildi fá meira frá Svölu og mér þótti ótrúlega vænt um það og fann rosalegan stuðning frá fólki hérna heima, sem mér fannst alveg rosalega dýrmætt. Ég var bara í sjokki eftir Eurovision hvað fólk studdi mig og þetta lag.“

Á dögunum kom út nýtt lag frá Svölu sem ber nafnið In the Night sem er fyrsta lagið sem kemur út af næstu plötu sem kemur út í haust.

„Draumaverkefnið er að mig hefur alltaf langað að vera í söngleik, vera á sviði og dansa og syngja,“ segir Svala en hér að neðan má sjá viðtalið við söngkonuna í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×