Handbolti

Fyrirliðinn verður aðstoðarþjálfari

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásbjörn Friðriksson er orðinn spilandi aðstoðarþjálfari FH.
Ásbjörn Friðriksson er orðinn spilandi aðstoðarþjálfari FH. vísir
Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH í Olís-deild karla í handbolta, hefur fengið enn stærra hlutverk hjá félaginu því hann er orðinn aðstoðarþjálfari liðsins.

Þetta kemur fram á heimasíðu FH en Ásbjörn verður spilandi aðstoðarþjálfari og tekur við starfinu af Árna Stefáni Guðjónssyni sem er þakkað fyrir óeigingjarnt starf fyrir FH undanfarin ár.

Fyrir utan stutt stopp í Svíþjóð hefur Akureyringurinn Ásbjörn verið í herbúðum FH í áratug og verið einn besti leikmaður Olís-deildarinnar undanfarin ár.

„Ási hefur alltaf haft sterka rödd innan leikmannahóps FH og með ráðningu þessari er ljóst að hún verður enn sterkari. Ási er gríðarlega virtur innan hópsins, og félagsins alls, og við væntum mikils af samstarfi hans og Halldórs Jóhanns,“ segir Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH.

Ásbjörn og félagar höfnuðu í öðru sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð eftir tap gegn ÍBV í lokaúrslitunum en þetta var annað árið í röð sem Hafnafjarðarliðið vinnur silfrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×