Handbolti

Stjarnan og KA/Þór unnu Greifamótið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
KA/Þór fagnaði sigri
KA/Þór fagnaði sigri mynd/ka.is
Stjarnan vann Norðlenska Greifamótið í handbolta sem haldið var á Akureyri um helgina. KA sigraði Akureyri í grannaslag um þriðja sætið.

Grótta byrjaði betur í úrslitaleiknum en eftir fimm mínútur náðu Stjörnumenn að komast yfir og létu forystuna ekki frá sér aftur. Lokatölur í leiknum urðu 26-22.

Egill Magnússon og Leó Snær Pétursson voru atkvæðamestir í liði Stjörnunnar með 9 og 7 mörk hvor. Hjá Gróttu var Jóhann Reynir Gunnlaugsson með 9 mörk og Magnús Öder gerði 7.

Heimaliðin KA og Akureyri mættust í leiknum um þriðja sætið. Þar var allt í járnum fyrsta korterið en KA tók völdin í seinni hluta fyrri hálfleiks og fór með sex marka forystu í hálfleikinn.

Akureyri reyndi nokkur áhlaup í seinni hálfleik en náði aldrei að ógna sigri KA neitt að viti, lokatölur 30-25. Áki Egilsnes var markahæstur á vellinum með 9 mörk fyrir KA. Áki var valinn besti leikmaður mótsins.

Þessi lið mætast einmitt í fyrstu umferð Olís deildar karla í risa leik.

ÍR vann HK í leiknum um fimmta sætið.

Í kvennaflokki vann KA/Þór risa sigur á Aftureldingu, 23-10, og tryggði sér sigur í mótinu. Leikurinn var aðeins styttri en venja er, leikið var tvisvar sinnum 20 mínútur.

KA/Þór vann alla þrjá leiki sína í mótinu og voru verðskuldaðir sigurvegarar mótsins.

Upplýsingar um gang mála í leikjum og mótinu eru fengnar frá ka.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×