Innlent

Neytendum stafar ekki hætta af eiturefni í morgunkorni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Efnið fannst í vörum frá matvælaframleiðendunum Quaker, Kellogg’s og General Mills, sem framleiðir Cheerios.
Efnið fannst í vörum frá matvælaframleiðendunum Quaker, Kellogg’s og General Mills, sem framleiðir Cheerios. Vísir/getty

Neytendum stafar ekki hætta af glýfósati, virka efninu í illgresiseyðinum Roundup, í matvælum á evrópskum markaði, að því er fram kemur í frétt á vef Matvælastofnunar. Greint var frá því í vikunni að eiturefnið fyndist m.a. í morgunkorni.

Sjá einnig: Umhverfisstofnun fylgist náið með eiturefnamálinu

Í frétt bandarísku umhverfisverndarsamtakanna EWG sem birtist í vikunni er skýrt frá því að virka efnið í illgresiseyðinum Roundup, glýfosat (glyphosate), finnist í mörgum þekktum matvörum, einkum í morgunkorni og fást einhverjar tegundir þess á Íslandi. Þá var einnig greint frá málinu í breska dagblaðinu The Guardian en efnið fannst í vörum frá matvælaframleiðendunum Quaker, Kellogg’s og General Mills, sem framleiðir Cheerios.

Yfir leyfilegum mörkum í 0,28% tilfella

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að Matvælaöryggisstofnun Evrópu, EFSA, safni niðurstöðum úr glýfosfatmælingum aðildarríkja Evrópusambandsins á hverju ári. Nýjustu niðurstöður eru frá árinu 2016 þar sem tekin voru 6761 sýni frá 26 löndum í Evrópu.

„Glýfosat greindist yfir leyfilegum mörkum í 19 sýnum eða 0,28% sýnanna. Það greindist ekki glýfosat í 96,4% sýnanna, þ.e.a.s. glýfosat var ekki til staðar eða í svo litlum mæli að það var ekki hægt að magngreina það,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Miðað við þessar niðurstöður telur EFSA að það magn sem neytendur innbyrða með matvælum á markaði sé ekki skaðlegt heilsu manna.
 

Ekkert glýfosat í vörum á Íslandi árið 2016

Þá gefi rannsókn EWG, þar sem tekin voru sýni úr kornvörum, ekki tilefni til að vara við neyslu á vörunum, hvorki fyrir fullorðna né börn, eða innkalla þær af markaði.

Einnig er bent á að glýfósat er leyft til notkunar á Íslandi en Umhverfisstofnun veitir markaðsleyfi og fer með eftirlit með innfutningi þess. Árið 2016 tók Matvælastofnun þrjú sýni af innlendum kornvörum til greiningar á glýfósati. Ekkert glýfósat fannst í vörunum.

Efnið glýfosfat er virka efnið í arfaeyðinum Roundup, sem er notaður við ræktun á erfðabreyttum korntegundum og fæst hér á landi. Landbúnaðarvörufyrirtækið Monsanto í Bandaríkjunum var fyrir nokkru dæmt til að greiða manni, sem er að deyja úr krabbameini, tæplega 32 milljarða króna í skaðabætur. Maðurinn hélt því fram að krabbamein hans mætti rekja að einhverju leyti til notkunar hans á arfaeyðinum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.