Ekki er langt síðan Suðurnes voru umfjöllunarefni fjölmiðla eftir brotthvarf Varnarliðsins 2006 og afleiðinga efnahagshrunsins en atvinnuleysi á svæðinu var á tímabili meira en 15%. Algjör viðsnúningur hefur orðið á svæðinu.
Íbúafjölgun hefur verið gríðarleg í Reykjanesbæ, sérstaklega frá árinu 2015. Árið 2008 bjuggu tæplega sex hundruð íbúar á Ásbrú en voru komnir yfir tvö þúsund í fyrra.

Á síðasta áru voru íbúar á Suðurnesjum um 25.000 og hafði þá fjölgað um fjögur þúsund frá árinu 2011. Mest hefur fjölgunin verið í Rekjanesbæ eða um 8% á ári tvö síðustu ár, og var íbúafjöldinn um 17.300 í fyrra. Nú er fjöldinn kominn yfir 18.500 og stöðug eftirspurn er eftir vinnuafli á svæðinu.
„Núna vantar alls staðar fólk og þetta er allt annað umhverfi sem við erum í. Nú erum við að keppast við að halda í við uppbyggingu á ýmsum stöðum, leik- og grunnskólum, gatnakerfi og nýjum hverfum á meðan að við úthlutuðum ekki einni einustu lóð 2009, 2010 og 2011," segir Kjartan.
Nýr leikskóli var tekinn í notkun á Ásbú í síðustu viku og hefur nemendafjöldinn aldrei verið meiri eða 70 börn og nokkur á biðlista. Starfandi leikskólastjóri segir mun meiri stöðugleika í bæjarfélaginu en áður og það sjáist best á innviðunum.

Kjartan segir bæjaryfirvöld keppast við að halda innviðum bæjarfélagsins uppi í takt við þessa öru þróun en að best væri ef fjölgunin hefði verið aðeins jafnari.
„Reykjanesbær er og hefur verið mjög lengi fimmta stærsta sveitarfélag landsins á eftir Akureyri en það er mjög stutt í það að, með sama áframhaldi, að við verðum orðin fjórða stærsta sveitarfélag landsins og ég myndi spá því fyrir árslok,“ segir Kjartan.