Lífið

Stelpur skulda heiminum ekki neitt

Benedikt Bóas skrifar
Dóra Júlía Agnarsdóttir gefur út sitt fyrsta lag á miðnætti á morgun.
Dóra Júlía Agnarsdóttir gefur út sitt fyrsta lag á miðnætti á morgun.

„Stundum er eins og stelpur þurfi að útskýra allt sem þær gera. Hvernig þær klæða sig og af hverju, hvernig þær haga sér hverju sinni, hvað þær segja og gera. En þær skulda ekki heiminum endalausa útskýringu á sjálfri sér. Þannig að lagið fjallar um kúl gellur sem eru bara að gera sitt og þannig í raun að standa með sjálfum sér,“ segir Dóra Júlía Agnarsdóttir sem gefur út sitt fyrsta lag undir listamannsnafninu J’Adora í samstarfi við Rok Records.

Pálmi Ragnar Ásgeirsson, úr tvíeykinu StopWaitGo, samdi lagið og það var upprunalega gert fyrir Hagkaupsauglýsingu. Stefið festist og vildi hann gera eitthvað meira úr því og hafði samband við Dóru. „Okkur datt í hug að gera smá þema úr þessu og þannig varð til þessi Art Pop pæling. Út frá því höfðum við samband við Ágústu Ýri, sjónlistamann í New York, og hún gerði þetta líka snilldarmyndband. Stella Rósenkranz danshöfundur kom inn í þetta með hreyfingar og danspælingar,“ segir hún.

Dóra Júlía lærði listfræði í Háskólanum.

Hún segir að þótt lagið sé eftir Pálma sé heildarpakkinn eftir sig. „Þetta er algjört girl power,“ segir hún ákveðin. „Það er eitthvað sem ég hef staðið fyrir allt mitt líf. Það má segja að heildarmynd lagsins sé út frá mér sjálfri sem og öðrum stelpum sem vilja bara fá að vera þær sjálfar óháð þessu fyrir fram ákveðna normi sem fyrrverandi feðraveldi hefur svolítið ákvarðað.“

Dóra Júlía lærði listfræði í Háskólanum og segist hafa mikinn áhuga á listrænni stjórnun og hvernig ólík listform vinna saman. „Hugmyndin var að búa til eitthvað svolítið nýtt og skemmtilegt, þetta Art Pop dæmi. Að blanda saman ólíkum listformum, sem var til dæmis það sem ég skrifaði BA-ritgerðina mína í háskólanum um. Ný bylgja af poppi, sem blandar líka inn pælingum í okkar lífi.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.