Handbolti

Viktor Gísli æfir með Svensson í Magdeburg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson æfir í Magdeburg með einum þeim besta í sögunni.
Viktor Gísli Hallgrímsson æfir í Magdeburg með einum þeim besta í sögunni. vísir

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður Fram í Olís-deild karla í handbolta, mun á næstu dögum ferðast til Magdeburg í Þýskalandi þar sem hann verður í æfingabúðum undir stjórn Tomasar Svensson í rúma viku.

Svensson, sem er einn besti markvörður sögunnar og vann tvö HM-gullverðlaun og fjögur EM-gullverðlaun með sænska landsliðinu, er markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins en hann kom til starfa hjá HSÍ þegar að Guðmundur Guðmundsson var ráðinn fyrr á árinu.

Viktor Gísli er efnilegasti markvörður Íslands en hann skaust upp á stjörnuhiminninn á síðasta ári þegar að hann fór á kostum með Fram í úrslitakeppni Olís-deildarinnar.

Síðasti vetur hjá Viktori var upp og niður en hann átti bæði stórleiki og aðra nokkuð dapra fyrir aftan oft á tíðum hræðilega vörn Fram-liðsins. Hann var í heildina með 28,3 prósent markvörslu en átti stórleik í undanúrslitum bikarsins þar sem að hann kom sínum mönnum í úrslitaleikinn.

Viktor Gísli vekur mikla athygli erlendis og er ljóst að það styttist í að hann fari í atvinnumennsku en fyrr í vetur var honum boðið til æfinga hjá franska ofurliðinu Paris Saint-Germain.

Markvörðurinn ungi, sem er aðeins 18 ára gamall, spilaði sína fyrstu landsleiki á dögunum þegar að hann fór með A-landsliðinu til Noregs og tók þátt í Gulldeildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.