Handbolti

Viktor Gísli æfir með Svensson í Magdeburg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson æfir í Magdeburg með einum þeim besta í sögunni.
Viktor Gísli Hallgrímsson æfir í Magdeburg með einum þeim besta í sögunni. vísir
Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður Fram í Olís-deild karla í handbolta, mun á næstu dögum ferðast til Magdeburg í Þýskalandi þar sem hann verður í æfingabúðum undir stjórn Tomasar Svensson í rúma viku.

Svensson, sem er einn besti markvörður sögunnar og vann tvö HM-gullverðlaun og fjögur EM-gullverðlaun með sænska landsliðinu, er markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins en hann kom til starfa hjá HSÍ þegar að Guðmundur Guðmundsson var ráðinn fyrr á árinu.

Viktor Gísli er efnilegasti markvörður Íslands en hann skaust upp á stjörnuhiminninn á síðasta ári þegar að hann fór á kostum með Fram í úrslitakeppni Olís-deildarinnar.

Síðasti vetur hjá Viktori var upp og niður en hann átti bæði stórleiki og aðra nokkuð dapra fyrir aftan oft á tíðum hræðilega vörn Fram-liðsins. Hann var í heildina með 28,3 prósent markvörslu en átti stórleik í undanúrslitum bikarsins þar sem að hann kom sínum mönnum í úrslitaleikinn.

Viktor Gísli vekur mikla athygli erlendis og er ljóst að það styttist í að hann fari í atvinnumennsku en fyrr í vetur var honum boðið til æfinga hjá franska ofurliðinu Paris Saint-Germain.

Markvörðurinn ungi, sem er aðeins 18 ára gamall, spilaði sína fyrstu landsleiki á dögunum þegar að hann fór með A-landsliðinu til Noregs og tók þátt í Gulldeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×