Skoðun

Sætið við borðsendann

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Í viðtali við Kjarnann ekki alls fyrir löngu sagði Svandís Svavarsdóttir að í ríkisstjórninni væru tveir hefðbundnir valdaflokkar sem sætu þar undir forsæti sósíalista og konu. Ég skil vel stolt Svandísar enda áhugavert í sögulegu samhengi. Í því felst einnig tækifæri sem áhugavert er að sjá hvernig er nýtt þegar kemur að hugsjónum og pólitík. Þau eru reyndar ekki mörg tækifærin sem fylgja sósíalismanum en annað er upp á teningnum þegar kemur að áherslum kvenna. Því nálgun kvenna á hin ýmsu mál er oft önnur en karla, eins og dæmin sýna. Slík fjölbreytni er eftirsóknarverð fyrir hvert samfélag.

Fjármálaáætlun hverrar ríkisstjórnar er grundvallarplagg, líkt og formaður VG sagði fyrir ári. Ríkisstjórn undir forystu sósíalista og konu veitir hins vegar litla framtíðarsýn í nýrri fjármálaáætlun um hvernig hægt er að byggja upp kjör kvennastétta. Að glitt hefði í slíkar hugsjónir í þessu grundvallarplaggi hefði verið dýrmætt. Þarna er tækifæri til að sýna afgerandi forystu og fá alla með til að leiðrétta kjör kvennastétta, hvort sem um ljósmæður, kennara, hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða er að ræða. En í staðinn virðast ráðherrar uppteknir við að senda kvennastéttum kaldar kveðjur í kjarabaráttu þeirra.

Það er í raun merkilegt að ríkisstjórnin taki ekki pólitíska forystu um þetta mál því það eru hagsmunir allra að þessi störf verði unnin, eftirspurn verði til að sinna þeim og endalausri óvissu eytt. Þannig styrkjum við bæði mennta- og velferðarkerfið til lengri tíma litið. Þess vegna er einfalt að samþykkja strax þingsályktunartillögu okkar í Viðreisn um að hefja vinnu til að bæta kjör kvennastétta.

Forgangsröðun í þágu kvenna og jafnréttis er ekki allra, ekki síst þegar kemur að hefðbundnum valdaflokkum. Þá þarf að toga í klárinn og sýna lipurð í senn. Það upplifðum við í Viðreisn á síðasta ári með jafnlaunavottunina og þetta sýnir sagan. Fyrir Vinstri græn er hins vegar óþarfi að láta undan íhaldssömum trega til breytinga á þessu umhverfi. Þótt ríkisstjórnin sé málamiðlunarstjórn. Miklu heldur þarf að sýna forystu og nýta tækifærið sem felst í sætinu við borðsendann.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×