Innlent

Gagnrýnir málflutning ASÍ um iðgjöld ökutækjatrygginga

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Verkefnastjóri hjá ASÍ segir tryggingafélög hækka iðgjöld þvert á þróun neysluverðs og annarra mikilvægra þátta. Félögin greiði út háan arð í stað þess að láta viðskiptavini njóta hagnaðar af rekstrinum. Framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja gagnrýnir málflutning ASÍ og segir ekki horft til réttra þátta.

Í nýrri samantekt Alþýðusambands Íslands kemur fram að iðgjöld bifreiðatrygginga hafi hækkað um 24% frá apríl 2014 fram í apríl 2018. Á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað umtalsvert minna, auk þess sem verð á bílum og varahlutum hafi lækkað mikið.

„Tryggingafélög eru ekkert öðruvísi en önnur fyrirtæki þannig að þeim er í sjálfvald sett hvort þau nota allan hagnað til að greiða út arð og hækka svo verð til viðskiptavina, eða hvort þau nota hluta af ágóðanum til að halda verði stöðugu, sleppa því að hækka verð og greiða þá minna út í arð. Þannig að það er greinilegt hver stefna tryggingafélaganna er varðandi það,“ segir Auður Alfa Ómarsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits hjá ASÍ.

Hagnaður upp á mörghundruð milljónir

Þannig kemur fram í samantektinni að mikill hagnaður hafi verið af starfsemi íslensku tryggingafélaganna fjögurra. Þá hafi þau öll greitt út hundruð milljóna króna í arð til eigenda sinna á síðasta ári. Upplýsingarnar um iðgjaldahækkunina fær ASÍ úr vísitölugögnum frá Hagstofunni. Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, telur hins vegar varasamt að byggja um of á slíku, enda sjáist aðrar tölur í ársreikningum félaganna.

„Heildariðgjöld sem greidd eru vegna ökutækjatrygginga hafa hækkað um ellefu prósent frá 2012. Á sama tíma hafa útgreiðslur bóta vegna tjóna innan ökutækjatrygginga hækkað um 26%,“ segir Katrín.

Mikilvægt að líta til launavísitölu

Þá segir Katrín enn fremur að tap hafi verið af ökutækjatryggingum félaganna þegar horft er samanlagt til áranna 2015 og 2016. Auður bendir hins vegar á að iðgjöld bifreiðatrygginga hafi í gegnum tíðina almennt haldist í hendur við vísitölu neysluverðs, þar til fyrir örfáum árum síðan – þegar samræmið hafi alveg slitnað.

„Við sjáum að verð á bílum hefur verið að lækka mjög mikið og sömuleiðis verð á varahlutum. Launakostnaður er líka eitthvað sem kemur þarna inn í, en tryggingafélögin greiða náttúrulega út tjón vegna slysa miðað við laun. Það er auðvitað einn þáttur og laun hafa hækkað,“ segir Auður.

Katrín segir hins vegar að launavísitala sé langmikilvægasti þátturinn, sem ASÍ skauti framhjá í talnaefni sínu. Þannig bendir hún á að tveir þriðju útgreiddra bóta í ökutækjatryggingum séu vegna líkamstjóna.

„Þar vegur launavísitala lang þyngst og hún hefur hækkað um 36% á þessu sama tímabili og ASÍ er að miða við,“ segir Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×