Skoðun

Gallað kerfi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ríkisstjórnin hefur heitið því að stórauka útgjöld til heilbrigðismála eins og fjármálaáætlun hennar ber skýr merki um. Forystumenn stjórnarinnar kynntu áformin nýverið með stolti og sögðust ætla að hækka útgjöldin um allt að 20 prósent á næstu fimm árum.

Sá böggull fylgdi hins vegar skammrifi að þeim láðist, vitandi eða óafvitandi, að geta þess hvernig fjármununum verður varið. Af áformunum mætti ráða að tilgangurinn væri að verja sem mestum fjármunum í heilbrigðiskerfið fremur en að sjá til þess að kerfið gagnist þeim sem þurfa á þjónustu þess að halda. Aukin útgjöld geta ekki verið markmið í sjálfu sér. Ef kerfið er gallað þýðir lítt að veita því aukið fé.

Og því miður eru ýmis merki um að kerfið virki ekki sem skyldi. Langur biðlisti er eftir því að komast á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum en engu að síður neitar ríkið að nýta sér þjónustu einkafyrirtækja hér á landi og sendir fólk fremur til Svíþjóðar, með mun meiri tilkostnaði, til þess að gangast undir slíka aðgerð. Kerfið segir einfaldlega nei og við það situr. Þakkarvert einkaframtak á borð við Hugarafl, Karitas og Krabbameinsfélagið virðist auk þess ekki hljóta náð fyrir augum kerfisins. Allt skal steypt í sama ríkismótið.

Í stað þess að hlýða á óskir þeirra sem kerfið á að þjóna, sjúklinganna, hafa stjórnvöld hagsmuni kerfisins í hávegum. Kerfið virðist skipulagt út frá þörfum þess sjálfs. Hugarfarsbreytingar er þörf. Það sem mestu skiptir er að sjúklingar eigi kost á nauðsynlegri og skjótri þjónustu með sem hagkvæmustum hætti. Gamaldags andúð á einkarekstri má ekki koma í veg fyrir að það markmið náist.




Skoðun

Sjá meira


×