Menning

Eignakönnunin mikla

Stefán Pálsson skrifar
Ófyrirséð afleiðing eignakönnunarinnar varð minna traust almennings á bankainnistæðum og dró aðgerðin því líklega úr vilja landsmanna til sparnaðar.
Ófyrirséð afleiðing eignakönnunarinnar varð minna traust almennings á bankainnistæðum og dró aðgerðin því líklega úr vilja landsmanna til sparnaðar.

Þann 2. janúar 1948 tóku nýir peningaseðlar gildi á Íslandi, um leið og bankaútibú voru opnuð eftir áramótin. Gömlu seðlarnir urðu ógildir á gamlárskvöld 1947, en þó mátti notast við þá í viðskiptum til 9. janúar. Landsmenn höfðu sem sagt viku til að skipta reiðufé sínu, en að þeim tíma liðnum urðu gömlu seðlarnir verðlausir – þó með þeirri undantekningu að sæfarendur máttu skipta peningum í fyrstu höfn eftir að í land var komið gegn því að framvísa vottorði skipstjóra síns.

Munurinn á gömlu seðlunum og hinum nýju var þó ekki ýkja mikill. Í báðum seðlaröðunum voru: 5 krónur, 10 krónur, 50 krónur, 100 krónur og 500 krónur. Á 5 og 50 króna seðlunum voru myndir af Jóni Eiríkssyni konferenzráði, átjándu aldar manni sem var lengi í miklum metum en hefur í seinni tíð að mestu gleymst í Íslandssögunni. Jón Sigurðsson forseti prýddi hina seðlana þrjá. Sömu prentmótin voru notuð fyrir báðar seðlaraðir, en litnum var breytt. Á meðan gamli 5 króna seðillinn hafði verið brúnn, var sá nýi grænn, 10 krónurnar sem áður voru bláar urðu nú rauðar og svo koll af kolli.

Það var þó hvorki pjatt né fagurfræði sem lá að baki þessum litabreytingum. Innköllunin var hluti af eignakönnuninni miklu, stórátaki íslenskra stjórnvalda til að átta sig á umfangi svarta hagkerfisins og uppræta skattsvik. Framkvæmd eignakönnunarinnar var hins vegar um margt misheppnuð og gerði að lokum alla óánægða. Aðgerðin var fjarri því að ná tilætluðum markmiðum sínum, en hafði ýmsar ófyrirsjáanlegar auka­afleiðingar. Fljótlega fennti yfir eignakönnunina í hugum fólks og er hún í dag vart meira en neðanmálsgrein í efnahagssögu tuttugustu aldar.

Veltutímar

Eignakönnunin og aðgerðir henni tengdar voru afleiðing djúprar gjaldeyris- og fjármagnskreppu sem þjóðar­búið átti við að etja, beint í kjölfar einhvers mesta uppbyggingar- og þensluskeiðs Íslandssögunnar.

Heimskreppan reyndist Íslendingum þungbær og hafði langvinnari áhrif hér á landi en víðast annars staðar á Vesturlöndum. Allt það breyttist í kjölfar hernáms Íslands. Eftirspurnin eftir íslenskum fiski náði hæstu hæðum í Evrópu og þörf hernámsliðsins fyrir vinnuafl var nánast takmarkalaus. Atvinnuleysi, sem herjað hafði á landsmenn allan fjórða áratuginn, hvarf eins og dögg fyrir sólu. Kaupgjald hækkaði, einkum í þéttbýlinu suðvestanlands og margt alþýðufólk gat í fyrsta sinn eignast sparifé.

Við lok stríðsins átti ríkissjóður fullar hirslur fjár og fjöldi heimila var betur stæður en nokkru sinni fyrr. Þörfin fyrir fjárfestingu var hins vegar brýn. Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks var mynduð árið 1944 um það verkefni að ráðstafa stríðsgróðanum. Það var gert með gríðarlegri innviðauppbygginu en ekki hvað síst með stórfjárfestingum í atvinnuvegunum, einkum sjávarútvegi. Á sama tíma stóðu sveitarfélög landsins í stórræðum með húsbyggingum og vegagerð.

Almenningur lét heldur ekki sitt eftir liggja. Fólk nýtti aukinn kaupmátt til kaupa á stærra og betra húsnæði. Heimilistækjavæðing hófst fyrir alvöru og sama gilti um kaup á hvers kyns innfluttum neysluvarningi. Landsmenn virtust staðráðnir í að bæta sér upp í einu vetfangi margra ára skort. Hátt gengi krónunnar (sem var úr öllum takti við eðlilegan styrk hennar) ýtti enn frekar undir neyslugleðina og þótt ýmsar viðvörunarbjöllur hringdu í hagkerfinu, þá hélst verð á útflutningsafurðum hátt, sem gaf tilefni til bjartsýni.

Það voru ekki efnahagsmálin sem urðu til þess að sprengja Nýsköpunarstjórnina haustið 1946 heldur deilur um Keflavíkursamninginn og veru bandarísks hers í landinu. Þá þegar voru þó blikur á lofti í þjóðarbúskapnum. Stríðshrjáðar þjóðir Evrópu gátu ekki til lengdar borgað jafnmikið fyrir íslenskar sjávarafurðir og verið hafði, auk þess sem löndin hófust þegar handa við að endurreisa matvælaframleiðslu sína.


Gjaldeyrir gufar upp

Hömlulitlar fjárfestingar þessara ára komu verðbólgunni á skrið, auk þess sem óraunhæf gengisskráning ýtti undir óheftan innflutning á hvers kyns varningi. Skyndilega vöknuðu landsmenn upp við þann vonda draum að hinn gildi gjaldeyrissjóður stríðsáranna hafði brunnið upp á ógnarhraða og ljóst var að erfitt yrði að ljúka mörgum þeim uppbyggingarverkefnum sem hafin voru.

Sem fyrr segir sprakk Nýsköpunarstjórnin í október 1946, fáeinum mánuðum eftir að hafa endurnýjað umboð sitt í þingkosningum. Ekki var talið að neitt væri unnið með nýjum kosningum, en á sama hátt var ljóst að stjórnarmyndun yrði strembin og réð þar bæði ágreiningur um málefni og persónuleg andúð einstakra stjórnmálaforingja.

Sú hugmynd kviknaði að freista þess að mynda þjóðstjórn allra fjögurra flokkanna sem sæti áttu á Alþingi. Var í því skyni stofnuð þingmannanefnd undir stjórn flokksformannanna og var á hennar vettvangi ákveðið að mynda hóp fjögurra hagfræðinga, sem hver tengdist sínum flokki, til að kortleggja stöðu efnahagsmála og koma með tillögur til úrbóta.

Hagfræðinganefndin fékk ekki nema örfáar vikur til starfa, en þegar niðurstöður hennar lágu fyrir kom í ljós dekkri mynd en nokkurn hafði órað fyrir. Að mati hagfræðinganna hafði gjaldeyrisforði landsmanna í raun klárast fyrir nokkrum mánuðum, en gjaldeyrir héldi áfram að streyma óheftur til útlanda. Tekjur ríkissjóðs stæðu ekki undir skuldbindingum hans og allt benti til þess að ríkið yrði af gríðarlegum skattgreiðslum vegna svarta hagkerfisins.


Róttækar aðgerðir

En hagfræðinganefndin gerði meira en að draga upp hryllingsmynd af hagkerfinu. Hún kynnti líka tillögur til aðgerða. Þær hugmyndir tóku mið af því hvað nefndarmenn töldu pólitískt raunhæft. Gengisfellingu töldu þeir útilokaða, þar sem verkalýðshreyfingin myndi aldrei taka slíkt í mál. Þess í stað lagði nefndin til að hert yrði á kerfi hafta og stýringar. Til þess að afla ríkissjóði tekna til að ljúka framkvæmdum Nýsköpunarstjórnarinnar lögðu hagfræðingarnir til að ráðist yrði til atlögu við skattsvikara.

Þjóðstjórn allra flokka varð ekki að veruleika, en tillögur hagfræðinganefndarinnar urðu grundvöllur að efnahagsstefnu ríkisstjórnar Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Auk Alþýðuflokksins, flokks forsætisráðherra, voru Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn með í stjórninni. Þeir síðastnefndu brugðust ókvæða við hugmyndum hagfræðinganefndarinnar og þeirri blessun sem hún lagði yfir haftabúskapinn, en hinir flokkarnir gerðu það dagljóst að ríkisstjórnarsamstarf hlyti að byggjast á þessum tillögum.

Til að öðlast skýra mynd af stærð svarta hagkerfisins lagði hagfræðinganefndin til að ráðist yrði í umfangsmikla eignakönnun. Öllum landsmönnum yrði gert skylt að telja fram eigur sínar og skuldir, jafnt fasteignir, lausafjármuni, skuldabréf og bankainnistæður. Niðurstöðurnar yrðu svo bornar saman við fyrri skattframtöl fólks og það látið gera grein fyrir mögulegu misræmi. Útskiptin á peningaseðlunum voru hugsuð sem hluti þessara aðgerða, enda viðbúið að heilu peningabúntin af undanskotsfé lægju í hirslum landsmanna.

Breið samstaða var um mikilvægi þess að uppræta skattsvikin, en skiptar skoðanir voru um hver markmiðin með aðgerðunum væru. Sumir töldu brýnast að ná í skottið á skattsvikurum og refsa þeim, meðan aðrir litu svo á að megintilgangurinn væri að afla ríkissjóði tekna. Segja má að seinni hópurinn hafi fengið sínu framgengt, þar sem eigendum vantalins fjár var boðið upp á að kaupa bundin ríkisskuldabréf á lágmarksvöxtum fyrir hina óútskýrðu fjármuni, sem jafngilti fremur lágri sekt.

Sósíalistar, sem gagnrýndu framkvæmd eignakönnunarinnar harðlega, beindu spjótum sínum sérstaklega að þessu atriði og líktu við sölu kaþólsku kirkjunnar á synda­aflausnarbréfum á miðöldum. Í sama streng tók Gylfi Þ. Gíslason þingmaður Alþýðuflokksins, sem raunar átti sæti í hagfræðinganefndinni. Hann taldi skattsvikara sleppa of létt og átaldi einnig að eignakönnunin sneri fyrst og fremst að bankainnistæðum og skuldabréfum, en rannsókn á fasteignum og lausamunum væri í skötulíki, þvert á tillögur hópsins. Sat Gylfi því hjá við afgreiðslu málsins á þinginu.

Þá var hinn langi undirbúningstími eignakönnunarinnar gagnrýndur af mörgum. Kannanir af þessu tagi höfðu misserin á undan verið framkvæmdar bæði í Danmörku og Noregi, þar sem tilgangurinn var ekki hvað síst að klekkja á þeim sem auðgast höfðu ótæpilega á viðskiptum við hernámslið Þjóðverja. Á báðum stöðum voru kannanirnar framkvæmdar fyrirvaralítið, en hér á landi leið tæpt ár frá því að eignakönnunin var boðuð snemma árs 1947 og þar til hún fór fram í árslok.

Þessi mikli fyrirvari gerði það að verkum að mörgum tókst að koma eigum sínum undan með ýmsum hætti. Miklir fjármunir streymdu úr landi með gjafasendingum, raunar svo miklir að til tals kom að banna þær alfarið. Mikið fé var sömuleiðis bundið í byggingum og hvers kyns gripum, sem aftur jók á eftirspurnarspennuna og verðbólguna. Efnafólk átti auðveldara með að skjóta sínu fé undan, með þeim afleiðingum að eignakönnunin skilaði miklu minni fjármunum til ríkisins en vonast hafði verið til og það einkum úr vösum efnaminna fólks.

Ófyrirséð afleiðing eignakönnunarinnar varð minna traust almennings á bankainnistæðum og dró aðgerðin því líklega úr vilja landsmanna til sparnaðar. Á hinn bóginn gat könnunin af sér annað fyrirbæri sem allir Íslendingar yfir fertugu ættu að muna eftir. Eignakönnunin og seðlaskiptin kölluðu nefnilega á að hvert mannsbarn gæti framvísað persónuskilríkjum í bankaútibúum en fæstir áttu vegabréf, enda utanfarir fátíðar. Fyrir vikið voru í skyndi sett lög um útgáfu nafnskírteina, sem áttu næstu áratugina sinn stað í seðlaveskjum almennings.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.