Körfubolti

Jón: Langar að kveðja íslenska landsliðið, sjáum til í kjölfarið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Arnór (fyrir miðju) fagnar fimmta titlinum í röð með KR
Jón Arnór (fyrir miðju) fagnar fimmta titlinum í röð með KR vísir/bára

Maðurinn sem margir segja vera besta körfuboltamann Íslandssögunnar var að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil og titillinn var jafnframt sá fimmti hjá KR í röð. Er þessi titill sætari enn allir hinir?

„Já, ég myndi segja það. Náttúrulega bara útaf þessu afreki. Við erum að slá met með þessu, fimm í röð og svo er þetta búið að vera tímabil sem er upp og niður allan tímann og mikið af róteringum og drama í kringum liðið,“ sagði Jón Arnór Stefánsson eftir frábæran sigur á Tindastól, 89-73 þar sem hann setti 14 stig.

„Við höfum ekki verið að spila eftir okkar bestu getu og erum að koma í fyrsta skipti sem litla liðið inn í úrslitakeppnina, á útivelli til að byrja með og við höfum aldrei gert það áður og það var áskorun fyrir okkur sem við vildum takast á við. Við settum upp gott „game-plan“ og framkvæmdum það. Fyrir vikið er þetta ótrúlega sætt.“

Afrek KR er eitthvað sem líklegast verður ekki leikið aftur, að taka fimm titla í röð.

„Það verður mjög erfitt. Auðvitað vonast ég til þess að það séu fleiri lið að byggja upp og vinna titla og titillinn flakki á milli, það er best fyrir íslenskan körfubolta. KR er búið að vera með yfirburði síðustu tíu ár og maður vill kannski sjá þetta þróast út í það að verða aðeins jafnara.“

„Deildin var mjög flott í ár og það var mikið af liðum sem voru búin að bæta sig mikið og áttu skilið að vinna þennan titil alveg eins og við.“

Jón Arnór er orðinn 35 ára gamall og hefur verið mikið meiddur á þessu tímabili. Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þennan magnaða leikmann?

„Ég verð alltaf KR-ingur. Spurning hvað maður spilar lengi í viðbót. Ég þarf að vera mjög duglegur í sumar að taka skrokkinn á mér í gegn ef ég ætla að taka þátt og vera góður. Ég hef oft sagt það að ef ég er ekki góður og mér líður eins og ég sé ekki góður þá vil ég ekkert spila.“

„Það bara kemur í ljós. Það eru landsleikir núna sem ég er búin að gefa það út að ég ætli að spila. Fram að þeim tíma þarf ég að vera rosalega duglegur, ég má eiginlega ekkert taka mér neina pásu, þarf að teygja á náranum þangað til. Það er áskorun fyrir mig og mig langar að kveðja íslenska landsliðið með þessum leikjum og fá minn kveðjuleik og drama og allt það.“

„Það er fyrsta verkefnið og svo sjáum við til í kjölfarið,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.