Handbolti

Bjarni hraunaði yfir ÍBV: „Fá að komast upp með að slasa leikmenn viljandi“

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Það var rosalegur hiti í leik ÍBV og ÍR í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í kvöld. Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, lét leikmenn ÍBV heyra það í leikslok en ÍBV marði fjögurra marka sigur.

„Mér fannst dómararnir dæma ágætlega en ég er orðinn ansi þreyttur á þessum leikaraskap í ÍBV. Þeir henda sér í jörðina við hvert einasta tilefni og þeir fá ekki einu sinni gult eða tvær eða neitt,” sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, er rætt var við hann í leikslok.

„Þetta er búið að viðgangast í þrjú fjögur ár og ég er orðinn verulega þreyttur á þessu,” sagði Bjarni sem var langt því frá hættur að senda Eyjamönnum tóninn:

„Sama og þegar Maggi (Magnús Stefánsson, leikmaður ÍBV) tekur Svein Andra út um leiknum, dúndrar í andlitið á honum og Sveinn getur ekkert spilað meira. Hann verður pottþétt ekki með í næsta leik.”

„Þetta er Maggi búinn að stunda í ansi mörg ár og það er ansi leiðinlegt að hann fái að komast upp með það að slasa leikmenn viljandi til að vinna leiki.”    

„Hann fór út í hann og bombaði í andlitið á honum. Það er náttúrlega bara þriggja eða fimm leikja bann. Þetta er hluti sem við í handboltanum viljum útrýma og dómararnir líka. Þess vegna fannst mér kjarkleysi hjá þeim að taka ekki á þessu broti.”

„Mér fannst dómararnir fínir og þeir eiga pottþétt eftir að endurskoða þetta. Maggi fer pottþétt í bann fyrir þetta. Ég hef ekki trú á neinu öðru,” en allt viðtalið við Bjarna má sjá í spilaranum efst í fréttinni.

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, heyrði þessi orð Bjarna og hann var verulega ósáttur við þessi orð kollega síns hjá ÍR.

„Mér finnst þetta til skammar. Fáránlegt að hlusta á þetta og honum ekki til sóma,” sagði Arnar í leikslok. „ÍR er með hörkulið og spiluðu fanta vörn. Þeir slógu okkur aðeins út af laginu og við náðum að vinna þetta mjög vel.”

„Það kom mér á óvart hvað við vorum lengi að ná tökum á þessu. Ég skil að Bjarni (Fritzson, þjálfari ÍR) hafi verið ánægður með línuna. Þeir fengu að spila og hlusta á þá væla þarna, jesús minn kristur. Þetta er honum til minnkunar.”

„Ef að þetta er línan sem er þá önnur en í deildinni þá komust þeir vel frá þessu. Ef að þetta á að vera svona þá komust þeir vel frá þessu en línan er allt önnur. Menn eru að fá að komast upp með meira hér en áður og ef það á að vera þannig þá komust þeir vel frá þessu.”

Nánar er rætt við bæði Bjarna og Arnar í sjónvarpsglugganum hér efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×