Erlent

Árásarhrina í Lundúnum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglan í Lundúnum hafði í nógu að snúast í vikunni.
Lögreglan í Lundúnum hafði í nógu að snúast í vikunni. Vísir/afp
Vikan sem er að líða var annasöm hjá lögreglunni í höfuðborg Bretlands en hún einkenndist mjög af ofbeldi og átökum; einkum hnífaárásum en það er meira en lögreglan á að jafnaði að venjast.

Í byrjun vikunnar var skotið á tvo unglinga úr bíl. Annar þeirra var skotinn í andlitið en báðir dóu innan sólarhrings. Aðeins tveimur dögum síðar voru tveir ungir strákar stungnir til bana með eggvopni. Annar þeirra er grunaður um innbrot. Á einum og hálfum klukkutíma urðu fimm ungmenni fyrir hnífaárás og þeirra á meðal var strákur sem var aðeins 13 ára. Hnífaárásin átti sér stað síðasta fimmtudag.

Síðasta vika markar, að því er séð verður, hrinu ofbeldis í borginni. Fleiri en fimmtíu hafa verið drepnir í Lundúnum frá því árið byrjaði. The New York Times vitnar í afbrotafræðinga sem telja að það sé varhugavert að draga ályktun út frá tölfræði nokkurra mánaða en ef fram heldur sem horfir er ljóst að árið 2018 verður það ofbeldisfyllsta í Lundúnum í meira en áratug. Það er slæmt ástand í höfuðborginni en meðtal morða á viku eru þrjú eins og sakir standa.

Ýmsar skýringar búa að baki ofbeldisfaraldrinum. Afbrotafræðingar segja frá aukinni hörku í undirheimum og þá telja þeir einnig að niðurskurður á þjónustu við ungt fólk og félagslegri þjónustu eigi hlut að máli.


Tengdar fréttir

Vargöld í Lundúnum

Þingmenn og baráttusamtök í Bretlandi segja að stjórnvöld þar í landi ráði ekki við ofbeldisölduna sem nú ríður yfir Lundúnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×