Skoðun

Ásetningur eða þekkingarleysi Einars K.

Ingólfur ­Ásgeirsson skrifar
Í síðustu viku snupraði Einar K. Guðfinnsson í grein í þessu blaði Jón Þór Ólason, formann Stangaveiðifélags Reykjavíkur, fyrir að taka ekki mark á því sem Einar kallaði „staðreyndir“. Svo óheppilega vill þó til fyrir Einar að vísindamaðurinn sem hann vitnaði til kannast alls ekki við að þær „staðreyndir“, sem Einar vill heimfæra upp á Ísland, eigi við um Ísland. Þvert á móti reyndar.

Einar hefði hæglega getað komist að þessu með því að hafa samband við umræddan vísindamann. Ef hann hefði gert það þá hefði hann komist að raun um að skilningur hans var rangur. En mögulega var það ekki það sem Einar vildi heyra?

Við hjá Icelandic Wildlife Fund tókum ómakið af Einari og settum okkur í samband við doktor Kevin Glover. Einar benti í grein sinni á niðurstöður doktors Glovers og félaga um að lítil blöndun eldislax við villilaxastofna hefur takmörkuð áhrif villtu stofnana, samkvæmt líkani sem vísindamennirnir hafa útbúið. Einar lét þess hins vegar ógetið að þessi rannsókn fór fram í Noregi þar sem notaður er norskur lax í eldinu. Í Noregi er stranglega bannað að nota eldislax sem er ekki norskur að uppruna. Hér á Íslandi er hins vegar alinn norskur eldislax í sjókvíum og áhættan þegar kemur að erfðablöndun því allt önnur, eins og doktor Glover staðfesti í svari sínu til IWF: „Eldi á norskum ræktuðum laxi á Íslandi felur í sér aukaáhættu vegna viðbótar erfðafræðilegra þátta sem ekki er tekið tillit til í líkaninu.“

Einar á að vita að norskur eldislax er aðskotadýr í íslenskri náttúru. Þegar eldislax af norskum stofni var fyrst fluttur til Íslands var það gert með þeim skilyrðum að hann yrði eingöngu notaður í landeldi og færi aldrei í sjó við Ísland. Það var mikið ógæfuspor þegar fallið var frá því skilyrði árið 2003.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort þessi rangi málflutningur Einars, sem er formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, sé byggður á þekkingarleysi eða ásetningi.

Hver svo sem skýringin er, þá er staðreyndin sú að líkan doktors Glovers snýst eingöngu um norskan eldislax og norskan villilax. Ekkert líkan er til um áhrif erfðablöndunar norsks eldislax við íslenska villilaxastofna. Icelandic Wildlife Fund hafnar því alfarið að sú tilraun fari fram í íslenskri náttúru.

Höfundur er einn af stofnendum Icelandic Wildlife Fund




Skoðun

Sjá meira


×