Erlent

Chicago-búa meinað að skjóta skjólshúsi yfir heimilislausa í kuldanum

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Heimilislausir hafa átt um sárt að binda í frosthörkunum sem geysað hafa víða í Bandaríkjunum.
Heimilislausir hafa átt um sárt að binda í frosthörkunum sem geysað hafa víða í Bandaríkjunum. Vísir/AFP
Borgaryfirvöld í Chicago hafa meinað íbúa í úthverfi borgarinnar að skjóta skjólshúsi yfir heimilislaust fólk vegna fimbulkulda sem nú ríkir víða í Bandaríkjunum.

Maðurinn, sem heitir Greg Schiller, hefur unnið með heimilislausum í nokkur ár og fann sig knúinn til þess að leyfa nokkrum heimilislausum einstaklingum að gista í kjallaranum sínum í mestu frosthörkunum.

„Í raun og veru er borgin að segja mér hverjum ég má bjóða heim til mín, hverjir geta verið vinir mínir og hvar má safnast saman á mínu heimili,“ sagði Schiller í samtali við The New York Times.

Schiller kallaði mannamótin „bíókvöld“ og sagðist hafa boðið heimilisleysingjunum heita drykki og snarl. Að hans sögn voru aldrei fleiri en fimmtán manns á heimili hans í senn og hann hafi lagt sig í líma við að vaka alla nóttina til þess að hafa eftirlit með fólkinu.

Borgaryfirvöld segjast hafa gripið inn í vegna þess að um væri að ræða ólögmætar aðgerðir af hálfu Schillers. Fasteign hans ku ekki hafa uppfyllt ákveðnar reglugerðir, til að mynda var lýsingu og loftræstingu ábótavant sem og útgönguleiðum vegna bruna.

Laura Valdez, aðstoðarframvkæmdastjóri Chicago-borgar tók þó fram að góðmennska Schillers væri aðdáunarverð. „Neyðarskýli eru ekki leyfileg í íbúðarhúsum. Hann [Schiller] hefur stórt hjarta og þetta er aðdáunarvert en hins vegar eru önnur skýli í boði sem eru lögleg.“



„Rétturinn til þess að bjarga“

Schiller þurfti að skella í lás eftir inngrip borgaryfirvalda en margir hafa sýnt honum samhug og stuðning. Lögfræðingurinn Jeff Rowes, sem hefur sérhæft sig í eignarétti og tjáningarfrelsi, tjáði sig opinberlega um málið og taldi að borgaryfirvöld hefðu farið yfir leyfileg mörk.

„Bæði Greg og heimilislausa fólkið sem hann aðstoðaði eiga stjórnarskrárvarinn rétt til þess að vera frjáls undan inngripum yfirvalda sem geta stefnt lífi þeirra í hættu,“ sagði Rowes og bætti við að mögulega væri réttur Schillers til þess að bjarga öðrum varinn af bandarísku stjórnarskránni.

„Schiller bauð eingöngu upp á húsaskjól í neyðartilfellum. Hann var alls ekki að reyna að reka leynilegt neyðarskýli fyrir heimilislausa alla daga ársins,“ sagði Rowes.



Neyðarskýlin ekki alltaf opin

Í grennd við Schiller eru nokkur neyðarskýli sem eru aðeins starfrækt í miklum kuldum. Til þess að heimilislausir fái þar inni um nætur þarf hitastigið að vera lægra en -10 gráður.

Schiller segist hafa boðið hópi af fólki að gista í kjallaranum hjá sér þegar kuldinn var mikill, en þó ekki nógu mikill til þess að áðurnefnd skýli væru starfrækt.

Annars konar skýli  er í hverfinu sem hýsir heimilislaust fólk allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þar er þó gerð sú krafa að fólk þurfi að hafa meðferðis skilríki með mynd til þess að fá inn. Þau hafa það þó að markmiði að skjóta skjólshúsi yfir sem flesta og gildir einu hvort um fólk með geðræn vandamál eða fíknivandamál er að ræða.

Að sögn forstöðumanns skýlanna gætu ýmsar ástæður verið fyrir því að heimilislaust fólk kjósi frekar að dveljast á einkaheimili en í löglegu skýli. „Sumir vilja ekki meina að þeir séu hjálparþurfi á meðan aðrir vilja drekka áfengi eða nota eiturlyf, sem eru ekki leyfileg í skýlunum. Það er ekki sanngjarnt að segja að þetta fólk hafi ekki haft í nein hús að venda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×