Innlent

Efling þverneitar að afhenda B-framboði upplýsingar um félagsmenn

Jakob Bjarnar skrifar
Gísli telur engan vafa leika á um að stjórn og skrifstofa geri upp á milli framboða en Sigurður vísar því á bug. Sólveig Anna Jónsdóttir og Ingvar Vigur Halldórsson takast á í leiðtogakjöri innan Eflingar með sína hópa.
Gísli telur engan vafa leika á um að stjórn og skrifstofa geri upp á milli framboða en Sigurður vísar því á bug. Sólveig Anna Jónsdóttir og Ingvar Vigur Halldórsson takast á í leiðtogakjöri innan Eflingar með sína hópa. Vísir
Enn er uppi djúpstæður ágreiningur milli B-lista, sem er í framboði til stjórnar Eflingar, og stjórnar félagsins. Stjórnin neitar að afhenda framboðinu símanúmer og tölvupóstföng félagsmanna. Formaður Eflingar, Sigurður Bessason, segir þetta einfaldlega sína skoðun að um trúnaðarupplýsingar sé að ræða og sé því einhver ósammála, þá verði svo að vera.

Vísir greindi frá því fyrir viku að B-listinn væri eindregið þeirrar skoðunar að stjórnin stæði með A-listanum og mismunaði listunum. Sólveig Anna Jónsdóttir leiðir B-listann en Ingvar Vigur Halldórsson A-lista.

„Á mannamáli, já, þau eru að móast við að veita upplýsingar og á lögfræðimáli heitir kerfislægt ójafnræði sem ég er að reyna, fyrir hönd B-listans að vinna gegn og jafna stöðuna,“ sagði Gísli Tryggvason, lögmaður B-lista þá. Stjórn Eflingar var afar ósátt við viðtalið við Gísla og umfjöllun um erindi hans og talaði um „falsfréttir“ í því sambandi, í sérstakri fréttatilkynningu.

Í huga Gísla leikur enginn vafi á um að stjórn og skrifstofa Eflingar mismuni framboðunum.visir/anton brink
Gísli telur nú einsýnt að Efling sé að reyna að drepa mál sem snýr að ósk B-lista um símanúmer og tölvupóstföng félagsmanna í Eflingu.

Rök stjórnar standast ekki

Hann hefur sent erindi ýmist til Magnúsar Nordahl, formanns kjörstjórnar og stjórnar vegna málsins. Gísli skrifaði erindi til Persónuverndar til að fá úr því skorið hvort rök þeirra þess efnis að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða og það stangaðist á við landslög, þær eru uppgefnar ástæður fyrir höfnuninni. Gísli hefur nú fengið svar við því erindi sínu.

„Svarið er í stuttu máli nei, þau standast ekki,“ segir Gísli.

Hann segist hafa fengið fyrir síðustu helgi svar frá Magnúsi formanni kjörstjórnar, „þegar ég var búinn að senda honum þetta svar, að ég teldi staðfest að rökin stóðust ekki. Þá kom svar um að þetta heyrði ekki undir kjörstjórn heldur stjórn Eflingar, sem er einskonar frávísun sem hefði átt að koma í upphafi. Og svo á laugardaginn kom höfnun frá stjórn.

Þá bað ég um ný og gild rök. Og þá svaraði Magnús að þetta væru bara sömu rök og síðast.

Sem ég tel nú ekki standast því rökin voru að þetta mætti ekki samkvæmt landslögum.“Telur ójafnræði fyrir hendi

Erindið snýr, sem áður sagði, að aðgengi B-lista að símanúmerum og netföngum félagsmanna. Og þar með kjósenda í þessu stjórnarkjöri.

En, eru þessar upplýsingar aðgengilegt A-lista?

„Já, gæti verið. Okkur grunar það að aðilar tengdir þeim hafi betri aðgang að félagsmönnum. Þetta ójafnræði er fyrir hendi og á mörgum sviðum. Í dag fékkst þessi útprentaða kjörskrá en bara með nöfnum og heimilisföngum. Þá þarf framboð B að fletta því upp í símaskrá, ef það á að ná í kjósendur.“

Utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hófst á þriðjudag en eiginlegir kjördagar eru 5. og 6. mars.

Sigurður Bessason segir umræddar upplýsingar tilkomnar vegna veikinda og fræðslustarfs og þær nái aðeins yfir brot félagsmanna.visir/gva
Sigurður Bessason, sem nú er að stíga úr stóli formanns Eflingar eftir 18 ára starf, segir í samtali við Vísi, þessar upplýsingar ekki til útdeilingar. Og hann hafnar því að gert sé upp á milli framboða af hálfu stjórnar og skrifstofu.

Skuldar félagsmönnum trúnað

„Við skráum ekki símanúmer og póstföng þegar menn gerast hér félagsmenn. Ekki er fyrirliggjandi slík skrá. En slíkar upplýsingar koma í einhverjum tilfellum inn þegar einstaklingar koma hingað inn á sjúkralista, vegna veikinda, vegna fræðslusjóðs og eru þess vegna að gefa upp þessar upplýsingar svo hægt sé að hafa samband við þá. En við teljum okkur skulda þessum félagsmönnum þann trúnað að við séum ekki að deila út þeim upplýsingum.“

Sigurður segist spurður þessar upplýsingar ekki heldur aðgengilegar A-lista. „Hvorugu framboðinu.“

Hann vísar fullyrðingum Gísla á bug, þá er hann var í viðtali við Vísi fyrir viku. „Það er langur listi, en gamlar fréttir í dag,“ segir Sigurður.Telur tengsl við Sósíalistaflokkinn óheppileg

Hann hafnar því að mismuna framboðunum en gerir þó athugasemd við það að framboð sé tengt með beinum hætti við pólitíska flokka. Og vísar þá til tengsla B-lista við Sósíalistaflokk Íslands. Hann segist fyrst og fremst hafa hlutverki að gegna gagnvart félagsmönnum. Og bendir á að þessar upplýsingar umræddar séu takmarkaðar.

„Við sækjum þær ekki í gegnum skrár sem lúta að skráningu félagsmanna. Þessar upplýsingar eru tilkomnar vegna þess að menn eru að sækja rétt sinn og snúa aðeins að broti félagsmanna.

Ég met það þannig að þær upplýsingar eigum við ekki að gefa út. Og svo mega menn bara vera annarrar skoðunar. Það verður þá svo að vera.“

En, telurðu þá að B-listamenn séu að fiska í gruggugum sjó?

„Ég veit ekkert um það. Þetta er ekki eitthvað sem er að gerast fyrst núna. Það voru framboð í Dagsbrún í gamla daga og þá var það með sama hætti en samkvæmt lögum félagsins er kveðið á um hvaða upplýsingar eru gefnar upp og það er með sama hætti og var þá.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.