Erlent

Loftfimleikamaður hrapaði til dauða á tónlistarhátíð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Pedro Aunión Monroy var 42 ára gamall.
Pedro Aunión Monroy var 42 ára gamall. Facebook
Loftfimleikamaður hrapaði til dauða fyrir framan þúsundir áhorfenda á tónleikahátíð á Spáni í gærkvöldi.

Spánverjinn Pedro Aunión Monroy hafði leikið listir sínar inni í kassa sem hékk úr krana í um 30 metra hæð. Tónleikagestirnir á Mad Cool Festival fylgdust óttaslegnir með manninum er hann hékk á kassanum áður en hann féll til jarðar.

Sjúkraliðar reyndu að endurlífga Monroy, án árangurs.

Myndband af slysinu má sjá hér að neðan. Það kann að vekja óhug.

Hljómsveitin Green Day, sem var aðalnúmer hátíðarinnar, sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter-síðu sinni í morgun. Þeir stigu á svið skömmu eftir slysið og segjast í yfirlýsingunni ekki hafa vitað af atvikinu fyrr en að tónleikum þeirra loknum.

Skipuleggjendur hátíðarinnar hafa beðist afsökunar á slysinu og segja að Monroy verði minnst á hátíðinni í dag. Mörgum hefur þótt ákvörðun skipuleggjendanna um að blása hátíðina ekki tafarlaust af ónærgætin í ljósi aðstæðna.

Tíst Green Day má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×